137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

Icesave og gengi krónunnar.

[10:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að taka kollega sinn í forustu Sjálfstæðisflokksins sér til fyrirmyndar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu sem verður rædd síðar í dag þar sem er að finna mjög skynsamlegar hugmyndir um það hvernig íslenska þjóðin á að vinna sig út úr þeim vanda sem hún er í. (Gripið fram í: … strax í febrúar.) Í þeirri tillögu er m.a. kallað eftir því að það verði sem víðtækast samráð og það er boðið upp á það af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þær tillögur sem þar eru eru margar mjög hugvitssamlegar og ég tel að margar þeirra séu þess eðlis að með sameinuðu átaki stjórnar og stjórnarandstöðu muni þær hjálpa okkur. Ég tel að hv. þingmaður ætti að feta í fótspor hv. þm. Bjarna Benediktssonar og leyfa sér þann munað a.m.k. einu sinni á dag að hugsa jákvæða hugsun. Það yrði gott fyrir Framsóknarflokkinn, (Gripið fram í.) það yrði gott fyrir þjóðina. Við megum ekki nota öll tækifæri sem við höfum, eins og hv. þingmaður virðist gera, til að tala kjarkinn úr þjóðinni. Þrátt fyrir erfiða stöðu og þrátt fyrir kreppu eru (Gripið fram í.) tækifæri þó að hv. þingmaður sé eins og kolanámuhestarnir bresku, hann horfir bara í eina átt og hann sér bara myrkur.