137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

endurskoðun á stöðu embættismanna.

[10:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör og fagna því að hún er þeirrar skoðunar að þessi mál þurfi að taka til endurskoðunar. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að hvað ráðuneytisstjóra varðar eigi að flytja sig yfir í það fyrirkomulag að ráðuneytisstjórar komi og fari með ráðherrum. Þeir eru nánustu trúnaðar- og embættismenn viðkomandi ráðherra og að mínu mati á að flytja sig yfir í það kerfi, það séu bara hreinar línur og það viti allir. Það gangi enginn gruflandi að því.

Það fyrirkomulag sem hér hefur fengið að þróast í undanfarna áratugi hefur verið einhvers konar samsuða af hvoru tveggja og ég tel að engum sé greiði gerður með því.

Svo vil ég minna hæstv. forsætisráðherra á að í dag, að ég hygg, hefur verið dreift frumvarpi til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands sem gefur að sjálfsögðu tækifæri til að taka þetta mál til skoðunar því að um það er fjallað í umræddum lögum.