137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

skipun samninganefndar um ESB-aðild.

[10:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst alla vega að hin frísklega Borgarahreyfing hafi þrátt fyrir allt haft nokkur áhrif hér í þessum sölum. Hún hefur að minnsta kosti tryggt málfrelsi utanríkisráðherra. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Þór Saari um að það er ljóstíra í þessum sal, meðal þingmanna og líka í efnahagsmálunum.

Varðandi það mál sem við ræddum hér, þ.e. hugsanlega umsókn að Evrópusambandinu, hefur það komið algjörlega skýrt fram af minni hálfu að ég vil hafa sem breiðast samráð við sem flesta stjórnmálaflokka, við þær nefndir þingsins sem um það véla. Ég hef sagt það alveg skýrt að eitt af því sem þarf að gera er auðvitað að fá aðstoð hlutlausra faglegra sérfræðinga frá útlöndum ef menn telja það nauðsynlegt til þess að tryggja að málinu vindi vel fram.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar og er sammála hv. þingmanni um að þarf líka að tryggja það, ef í þetta ferli verður farið eftir að Alþingi hefur afgreitt málið, að öll upplýsingamiðlun verði með sem hlutlægustum hætti. Ég er alveg reiðubúinn til þess að hlusta á hið háa Alþingi varðandi með hvaða hætti það er gert.

Hv. þingmaður hefur sett fram ákveðnar skoðanir á því. Aðrir á þinginu hafa sett fram örlítið mismunandi skoðanir en ég er þeirrar skoðunar að upplýsingamiðlun skipti mjög miklu máli.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég er reiðubúinn að láta nú af ræðuflutningi til þess að fleiri komist að.