137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. málshefjanda fyrir að taka atvinnumálin upp á Alþingi enda er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, bæði fyrir fyrirtækin í landinu og þó ekki síst heimilin.

Eins og í öllum löndum sem hafa gengið í gegnum fjármálakreppu með miklum samdrætti þjóðartekna og innlendrar eftirspurnar upplifum við gríðarlega erfiðleika í atvinnulífinu og við höfum verið að horfa upp á aukið atvinnuleysi þó að nýjustu tölur sýni að það sé þó að hægja á þeirri aukningu.

Til viðbótar við afleiðingar fjármálakreppu búum við við gríðarlega erfiða gjaldeyriskreppu svo verðgildi krónunnar er stutt höftum, háum vöxtum og inngripum Seðlabankans. Gjaldeyriskreppan torveldar hefðbundnar örvunaraðgerðir, svo sem mjög hraðar vaxtalækkanir og aukningu ríkisútgjalda. Við þessar aðstæður er mikilvægasta einstaka aðgerð ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sú efnahagsáætlun sem fylgt er við að ljúka endurreisn bankakerfisins og koma á jafnvægi í ríkisfjármálum. Þannig skapast forsendur fyrir meiri gengisstöðugleika, afnámi gjaldeyrishafta í áföngum og mun hraðari lækkun stýrivaxta í takt við minni verðbólgu.

Nú í sumar erum við að ná nokkrum mikilvægustu áföngunum og leggja þannig grunn að endurreisninni. Ég nefni sérstaklega stöðugleikasáttmála við aðila á vinnumarkaði enda vitum við öll að framtíðarlausnin felst í verðmætasköpun í atvinnulífinu, störfin verða til hjá fyrirtækjunum, okkar er að skapa forsendurnar. Við þurfum að horfa til lengri og skemmri tíma. Til skemmri tíma, eins og fram kom í máli hv. málshefjanda, hefur verið hrint af stað sérstöku átaki í atvinnumálum með fjölbreyttum verkefnum upp á u.þ.b. 6 þúsund ársverk sem ætlað er að draga úr atvinnuleysinu yfir mesta samdráttarskeiðið. Iðnaðarráðuneytið er þessa dagana að taka saman þann fjölda starfa sem þegar er orðinn til vegna átaksins. Þær tölur verða lagðar fram í ríkisstjórn í næstu viku og þá getum við farið ítarlega fyrir bæði heildina og sundurliðunina sem kallað var eftir.

Ég vil nefna örfá atriði sem ég tel rétt að komi fram og liggja nú þegar fyrir. Ef ég vík að byggingariðnaðinum eru vísbendingar um að sá liður áætlunarinnar muni skapa fleiri ársverk en þau 1.700 sem gert er ráð fyrir þar. Þá má nefna að Alþingi hefur samþykkt heimild fyrir fjárfestingarsamningi vegna álvers í Helguvík. Þar verða 4 þúsund ársverk á framkvæmdatímanum svo ekkert eitt verkefni mun vega þyngra.

Nýsköpunarmiðstöð og iðnaðarráðuneytið beittu sér strax fyrir opnun þriggja nýrra frumkvöðlasetra í samstarfi við fyrirtæki og tvö hafa bæst við, þannig að nú eru þegar orðin átta um landið allt. Nýlega heimsótti ég þekkingar- og frumkvöðlasetrið Eldey í Reykjanesbæ, sem er kjördæmi hv. þingmanns. Meðal frumkvöðlanna þar er fyrirtækið HBT sem líkt og Marorka vinnur að orkusparnaði fyrir skipaflotann. Það eru margar góðar fréttir í atvinnumálum og þetta fyrirtæki er dæmi um það vegna þess að þar eru starfsmenn orðnir 16 og fjölgar um annað eins á árinu, telja menn þar, enda veltan áætluð um 2 milljarðar þegar á þessu fyrsta starfsári. Við þurfum að halda góðum fréttum eins og þessum til haga.

Um 100 einstaklingar af skrá yfir atvinnuleitendur starfa nú við nýsköpun og þróun í yfir 50 fyrirtækjum gegnum verkefnið Starfsorku sem iðnaðarráðuneytið setti á laggirnar í samstarfi við Vinnumálastofnun. 14 sveitarfélög hafa staðfest þátttöku í samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, samgönguráðuneytisins og sveitarfélaganna. Það þýðir 312 störf og enn er að bætast þar við. Hvað stöðu stærri verkefna í iðnaði varðar get ég sagt að í tengslum við stöðugleikasáttmála aðila á vinnumarkaði er rætt um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun verkefna. Þar er Búðarhálsvirkjun nærtæk, enda öll leyfi þar fyrir hendi, og gríðarlega mikilvægt að það starf fari af stað vegna þess að það er rík eftirspurn eftir orku.

Framkvæmdir eru hafnar við húsnæði fyrir netþjónabú Verne Holding í Reykjanesbæ og nýlega undirritaði ég samkomulag við aðstandendur sólarkísilverksmiðju í Helguvík en þeir vinna nú að fjármögnun verkefnisins. Síðar á árinu er einnig að vænta ákvörðunar um hvort ráðist verður í byggingu hreinkísilverksmiðju í samstarfi við Strokk Energy. Í síðustu viku skoðuðu síðan fulltrúar Greenstone ásamt mjög stórum bakhjarli, Blönduós, Egilsstaði og fleiri staði sem mögulega staðsetningu fyrir stórt netþjónabú, líklega eitt það stærsta sinnar tegundar.

Þetta er það sem ég hef tínt til hvað varðar verkefni til skemmri tíma, en auðvitað er stóra verkefnið líka að horfa til lengri tíma. Ríkisstjórnin er núna að vinna að sóknarstefnu í atvinnumálum með áherslu á græn gildi. Tillögur um bætt starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja munu liggja fyrir á næstu vikum og á vegum ráðuneytisins er einmitt að hefjast vinna við að móta heildstæða orkustefnu sem ætlað er að vinna saman við þessa heildstæðu atvinnustefnu. Þar eigum við að horfa til þeirra verkefna sem vilja nýta okkar endurnýjanlegu orku en hafa hvert um sig mun minni orkuþörf en hefðbundin stórverkefni á borð við álver. Ríkur vilji er til þess að einhver þessara verkefna verði að veruleika sem allra, allra fyrst.

Erlend nýfjárfesting er okkur mjög mikilvæg núna og það eykur mér bjartsýni að í ráðuneytinu hefur aldrei verið jafnmikil traffík af aðilum sem horfa til okkar sem staðsetningarkosts. (Forseti hringir.) Þess vegna mun rammalöggjöf um ívilnanir fyrir erlendar fjárfestingar skipta gríðarlega miklu máli og ég vona eins og hv. þingmaður að hún muni líta dagsins ljós mun fyrr en í lok þessa árs.