137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér atvinnumál. Atvinnumissir er ein alvarlegasta afleiðing kreppunnar og því hefur ríkisstjórnin ráðist í brýnar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi sem skila eiga um 6 þúsund störfum á næstu mánuðum og missirum. Góðu fréttirnar eru þær að atvinnuleysistölur eru að síga niður fyrir 9% og að námsmönnum hefur gengið betur að fá vinnu í sumar en reiknað var með. Sérstök áhersla verður lögð á að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að virkja fjölþætt úrræði Vinnumálastofnunar og stuðla að endurmenntun atvinnuleitenda.

Sóknarfærin í atvinnusköpun í landinu liggja í frumatvinnuvegum okkar og nýsköpun í sprotafyrirtækjum. Með stuðningi við uppbyggingu þessara fyrirtækja mun fjöldi nýrra starfa verða til og aukinna gjaldeyristekna aflað fyrir þjóðarbúið. Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki í endurreisn atvinnulífsins. Lögð verður áhersla á að skapa greininni sem best rekstrarskilyrði og mótuð verður heildstæð fullvinnslustefnu í nánu samráði við alla hagsmunaaðila. Frjálsar handfæraveiðar í sumar eru liður í því að auðvelda atvinnusköpun í sjávarbyggðum.

Mikill hugur er í ferðaþjónustuaðilum og mikil sóknarfæri fram undan. Ársverk í greininni eru 8.200 og hefur fjöldi erlendra ferðamanna aukist um 66% frá árinu 2000. Efld verður markaðssókn í ferðaþjónustu með sameiningu landkynningarmála undir merkjum nýrrar Íslandsstofu. Kannanir sýna að Ísland sem áfangastaður ferðamanna hefur ekki beðið tjón vegna bankahrunsins.

Stórt verkefni er í sjónmáli en það er bygging nýs háskólasjúkrahúss sem skapa mundi fjölda ársverka í byggingariðnaði og vinnu fyrir arkitekta og verkfræðinga.

Eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir nú er að leita allra ráða til að verja þau mikilvægu störf í mennta- og velferðarkerfinu sem við mögulega getum. (Forseti hringir.) Heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland mun byggjast á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynja, heilbrigðum viðskiptaháttum, jafnvægi í byggð landsins (Forseti hringir.) og grænni atvinnuuppbyggingu í anda sjálfbærrar þróunar.