137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á hv. þingmann Borgarahreyfingarinnar tala um að það eigi að hætta öllum stóriðjuframkvæmdum og gera eitthvað annað í staðinn eða þá að hlusta á hæstv. iðnaðarráðherra tala um að helsti áfanginn í atvinnumálum sé stöðugleikasamkomulag aðila vinnumarkaðarins og að reisa eigi netþjónabú.

Það er fyrst og fremst Samfylkingin sem á heiður af því að tækifæri til atvinnuuppbyggingar hafa glatast á undanförnum árum, tækifæri sem í dag hefðu haft úrslitaáhrif á atvinnuþróun í landinu. Við eigum einstaka möguleika til eflingar á atvinnulífinu. Stjórnmálamenn þurfa að hafa kjark til að nýta þau tækifæri sem liggja fyrst og fremst í virkjunarmöguleikum okkar. Nokkrir valkostir eru þar augljósir og þurfa ekki að bíða þeirrar rammaáætlunar um virkjunarkosti sem Samfylkingin notar til að réttlæta aðgerðarleysi sitt. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að bíða, virðulegi forseti. Það eru einkunnarorð þessarar vinstri stjórnar, að bíða og skoða málin en kjarkur og úrræðaleysi eru frekar réttnefni á stefnuleysi þeirra. Iðnaðarráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstv. samfylkingarráðherrar Össur Skarphéðinsson og Katrín Júlíusdóttir, hafa verið óþreytandi að tala um öll tækifærin sem liggja á borði ráðuneytisins, þau hafi aldrei verið fleiri en nú. Nú þurfa þjóð og þing að upplifa aðgerðir á þessum vettvangi frekar en á þeim innihaldslausa fagurgala samfylkingarráðherranna sem okkur hefur verið boðið upp á fram að þessu.

Það eru öflugir og stöðugir atvinnuvegir sem standa undir aukinni verðmætasköpun og eflingu þjóðarframleiðslunnar og verða lykillinn að viðreisn samfélagsins. Undirstaða þess er skynsamleg nýting náttúruauðlinda okkar sem okkur hefur tekist vel með á undanförnum áratugum. Það er tímabært að þessi ríkisstjórn vinstri flokkanna geri sér grein fyrir því að efling atvinnulífsins og aukin útflutningsverðmæti verða grunnurinn að því að þessi þjóð nái vopnum sínum aftur en ekki aukinn ríkisrekstur og frekari skattpíning.