137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. En það er alveg nauðsynlegt þegar þingmenn fara með tölur um atvinnuleysi að þeir fari rétt með vegna þess að hér kepptust hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Birkir Jón Jónsson við að hækka tölur hvor annars. Hv. þm. Þór Saari hélt því fram að hér væru um 18 þúsund manns atvinnulausir og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hélt því fram að þeir væru 19 þúsund. Það rétta er og það ánægjulega er að við erum að sjá breytingar í þessu og atvinnulausir eru rúmlega 16 þúsund. Þar af, þ.e. af heildinni sem skráð er á atvinnuleysisskrá, eru um 3 þúsund í hlutastörfum. Og af því að hv. þm. Þór Saari nefndi að við þyrftum að koma fólki í verkefni, þá eru 3 þúsund í hlutastörfum, 1.500 nýta sér þau úrræði sem ég fór yfir í ræðu minni að flokkast m.a. undir verkefni Starfsorku og líka undir sérstök átaksverkefni og starfa með atvinnuleysisbæturnar með sér í fyrirtækjum í landinu. Þetta eru vissulega ánægjulegar tölur og atvinnuleysið stendur í stað og er að minnka ef eitthvað er, eins og hér hefur komið fram.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst, fannst mér, af ræðum hv. þingmanna, margra, að þær voru skrifaðar eða punktarnir teknir niður áður en ég flutti mína ræðu í dag vegna þess að í ræðu minni kom skýrt fram að við erum að leita fjölbreyttra úrræða í atvinnumálum. Við viljum skjóta fjölbreyttum stoðum undir íslenskt atvinnulíf til framtíðar. Við erum að grípa til skammtímalausna og það er ekki þannig að það sem ég mun kynna í næstu viku sé einhver áætlun um hvernig við ætlum að ná þessum 6 þúsund störfum, heldur verður þetta árangursmat sem birt verður.

Ég fór yfir það í ræðu minni að við höfum náð gríðarlegum árangri varðandi atvinnuleysið og við ætlum að halda áfram á sömu braut — það vantar ekki kjark og það vantar ekki vilja hjá ríkisstjórninni eða þeim iðnaðarráðherra sem hér stendur til að gera það sem gera þarf í þeim efnum — og þá erum við bæði að horfa til (Forseti hringir.) stórra verkefna en líka smárra.