137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[11:36]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

Það má segja að þrjár meginástæður séu fyrir því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerir þetta á þessum tímapunkti. Í fyrsta lagi til að undirstrika mikilvægi þess að nú verði brugðist hratt, ákveðið og örugglega við þeim mikla vanda sem að okkur steðjar og við vekjum athygli á því í þingskjalinu og höfum verið að gera það undanfarna daga í umræðunni að ella mun safnast upp mikill aðgerðaleysiskostnaður.

Í öðru lagi er þessum tillögum um aðgerðir í efnahagsmálum teflt fram til að ýta undir þá nauðsynlegu samstöðu sem við teljum að sé nauðsynleg um þessar mundir vegna þess að við vitum öll, sem höfum verið að kynna okkur ástandið í efnahagsmálum, stöðu heimilanna, skuldastöðu þeirra og greiðsluvanda, stöðu atvinnustarfseminnar og auðvitað ekki síður hið mikla tekjufall ríkisins, að það bíða okkar ekkert nema óvinsælar ákvarðanir. Sameiginlega stöndum við þó öll að verkefninu til að láta gott af okkur leiða. Við þessar mjög svo erfiðu aðstæður er mikilvægt að reyna að skapa sameiginlega sýn á forgangsröðun, sameiginlega sýn á mikilvægi helstu verkefna sem við þurfum að glíma við. Í þessari þingsályktunartillögu er leitast við að koma til móts við þá miklu þörf.

Í þriðja lagi er að finna í þessari þingsályktunartillögu bæði beinar tillögur um aðgerðir sem við teljum skynsamlegt að grípa til en einnig hugmyndir um vinnuhópa og þverpólitískt samráð um einstök mál sem við teljum nauðsynlegt að taka til sérstakrar skoðunar.

Í þingsályktunartillögunni er þeim aðgerðum sem við teljum nauðsynlegt að grípa til skipt í grófum dráttum upp í fimm meginflokka. Ég ætla að leyfa mér á þeim tíma sem ég hef til framsögu að renna aðeins yfir það helsta sem fellur undir hvern flokk. Ég byrja þá á heimilunum eins og gert er í þingskjalinu.

Það er skoðun okkar að rýmka þurfi verulega skilyrði þess fyrir heimilin að þau geti lækkað greiðslubyrði sína. Á þinginu og í ráðuneytunum líka hafa verið teknar ákvarðanir um að þróa leiðir til þess að þeir sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum geti fengið aðstoð, t.d. með frystingu lána, með því að lengja greiðslutíma. Hér hafa verið lögfest úrræði sem gera ráð fyrir því að þeir sem ekki geta notið góðs af hinum almennu úrræðum fari fyrir héraðsdóm og fái skipaðan tilsjónarmann.

Við teljum einfaldlega að heilt yfir sé vandinn svo umfangsmikill að leiðirnar sem nú þegar eru til staðar séu of flóknar. Við teljum þess vegna mikilvægt að skilyrðin verði rýmkuð verulega og fleirum verði þannig gert kleift með einföldum hætti að óska eftir greiðsluhléi á hluta húsnæðislána sinna, við búum til þriggja ára aðlögunarferli og á því tímabili sé hægt að lækka greiðslubyrðina um allt að 50%, um allt að helming vegna húsnæðislána. Á móti eru lánin lengd.

Við vekjum jafnframt athygli á því að við teljum að vandinn sé það umfangsmikill að ekki verði hjá því komist að lækka höfuðstól lána. Það eru öll merki á lofti um að það muni þurfa að gera þrátt fyrir þær umfangsmiklu aðgerðir sem nú þegar hafa verið lögfestar og hægt er að bæta við. En slíkt er að okkar áliti ekki skynsamlegt að gera án þess að um það hafi tekist þverpólitísk sátt með hvaða hætti það verði gert og það á einungis að gera í þeim undantekningartilvikum þegar hin almennu úrræði duga ekki til.

Við viljum, sem dæmi um það sem þarf að gera fyrir heimilin, líka afnema stimpilgjöld. Vextir munu lækka og smám saman munu opnast möguleikar til endurfjármögnunar og þá er mikilvægt að þættir eins og stimpilgjöld séu ekki í veginum fyrir því að heimilin geti endurfjármagnað sig með ódýrari hætti. Og þau eru líka jafnframt til trafala í öðru samhengi fyrir heimilin, t.d. þegar um er að ræða eignaskipti og fólk er að minnka við sig til að sýna ráðdeild, þá eru stimpilgjöldin skattur á þær hagræðingaraðgerðir hjá fjölskyldunum.

Við lítum á það sem aðgerð í þágu heimilanna að það verði sérstaklega spornað við atvinnuleysi með fjölbreyttri uppbyggingu til að mynda í orkufrekum iðnaði. Við megum aldrei, við lausn á þeim vanda sem við erum að kljást við núna, missa sjónar á því að atvinnumálin eru eitt stærsta hagsmunamál heimilanna. Heimili geta ekki staðið í skilum ef engin er atvinnan og ef engin er atvinnan mun ríkið ekki hafa neinar tekjur. Þannig getum við lent í óstöðvanlegum spíral eins og margar þjóðir í Evrópu ef okkur mistekst að halda uppi háu atvinnustigi í landinu.

Þess vegna höldum við því sérstaklega til haga í þessari þingsályktunartillögu að við þurfum að halda áfram að stuðla að skynsamlegri auðlindanýtingu. Það er hægt að grípa til margra úrræða eins og t.d. skattalegra hvata og skapa hagstætt umhverfi til nýsköpunar til að hvetja fyrirtæki til að verja fjármunum sínum í rannsóknir og þróun. Þetta er hægt að gera með því að auka skattafslátt vegna rannsóknarútgjalda og með þessum hætti leggjum við það í hendur atvinnustarfseminnar í landinu að ákveða hvar fjármununum er vel varið. Við lítum á þetta sem fjárfestingu til framtíðar sem muni gagnast þjóðinni allri.

Ég þarf að fara dálítið hratt yfir alla þessa flokka og ég ætla að fara í fyrirtækin næst. Við teljum algjörlega nauðsynlegt að nú verði gripið til heildarendurskipulagningar skulda atvinnulífsins með gagnsæjum hætti. Það liggur fyrir að skuldirnar hjá atvinnustarfseminni í landinu eru miklu meiri en reksturinn stendur undir. Og eitt stóra verkefnið er þetta: Hvernig ætlum við að leiða fram þær afskriftir sem nauðsynlegar eru í eignasafni nýju ríkisbankanna?

Gleymum því ekki að við höfum gengið út frá því í allri umræðu í vetur að ríkið stofni nýju ríkisbankana með því að kaupa eignasöfnin á verulegum afslætti. Það þýðir að búið er að byggja inn væntingar um að það þurfi að afskrifa lánin í stórum stíl. Og nú þurfum við að fara að svara þeirri spurningu: Ætlum við að gera það með því að fara með hefðbundnum hætti í innheimtuaðgerðir á þessum lánum? Tökum sem dæmi lán sem er upp á 100 millj. en keypt hefur verið af nýja ríkisbankanum á 50 millj. Hvernig ætlum við að leysa úr þeirri stöðu að lánið stendur í 100 millj. á fyrirtækið en ríkisbankinn hefur fengið það á 50 millj.? Ætlum við að fara í hefðbundnar innheimtuaðgerðir? Við segjum nei, það er ekki hægt að gera það. Við erum ekki að tala hér fyrir flötum prósentuniðurskurði á öllum lánasöfnum, við erum að segja að núna þarf að grípa til samræmdra aðgerða, tryggja gagnsæi og jafnræði og við megum engan tíma missa við að endurskipuleggja skuldastöðuna.

Þetta er verkefni sem er vel hægt að framkvæma og ef vel tekst til munum við bjarga fjöldanum öllum af störfum. Og við skulum ekki gleyma hvatanum sem nauðsynlegt er að viðhalda hjá stjórnendum fyrirtækjanna. Þeir verða að sjá, eins og menn ræddu hér undir öðrum dagskrárlið í morgun, einhverja ljóstíru, einhverja von. Það þarf að viðhalda von og hvötum hjá atvinnulífinu.

Allt tengist þetta því að við megum ekki halda áfram á þeirri braut að störfum haldi áfram að fjölga meira hjá hinu opinbera en í einkageiranum. Um leið teljum við mikilvægt vegna þess að það verður óumflýjanlegt að ríkisbankarnir taki þrátt fyrir þessar aðgerðir yfir eignarhlut í mörgum fyrirtækjum og það er nú þegar byrjað að gerast. Við getum nefnt Morgunblaðið sem dæmi, ríkisbankarnir fengu það fyrirtæki í hendur og seldu aftur.

Icelandair er annað dæmi og þau eiga eftir að verða fleiri. Penninn-Eymundsson, það gamalgróna félag, er nú í raun undir eignarhaldi ríkisins. (Gripið fram í: Og fleiri.) Ég gæti haldið áfram að telja upp langan lista af fyrirtækjum sem munu lenda í þessari stöðu og við skulum sameinast um það að hafa þau sem allra færst. En vegna þess að þetta er fyrirsjáanlegt og þegar byrjað að gerast er gríðarlega mikilvægt að við förum nú strax að setja reglur um það hvernig þeim verði aftur komið í hendur einkaaðila.

Við fjöllum um fjármál hins opinbera. Það verður strax að bregðast við þannig að við söfnum ekki að óþörfu viðbótarhalla á þessu ári, á yfirstandandi fjárlagaári, eins og vísbendingar eru um að sé að gerast. Það er algjörlega óviðunandi og reyndar rifjar upp að við höfum í allt of mörg ár fengið ábendingar frá ríkisendurskoðanda um að við förum ekki eftir fjárlögum. Allt of margir fjárlagaliðir fara fram úr ár eftir ár eftir ár. Ef einhvern tímann er mikilvægt að standast fjárlög þá er það við þær aðstæður sem eru uppi núna þar sem við höfum ekki efni á því að fara fram úr.

Við leggjum fram hugmyndir sem geta stóraukið tekjur ríkisins án þess að ganga á ráðstöfunartekjur heimilanna. Þar þarf til að koma afar víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins en þetta er hugmynd sem við leggjum í púkkið. Þetta er hugmynd sem undirstrikar það að við viljum vera lausnamiðaðir við endurreisn efnahagslífsins og hún sker sig frá öðrum hugmyndum sem verið hafa í umræðunni að undanförnu að því leytinu til að þarna er bent á leið sem getur stóraukið tekjur ríkisins án þess að leggja auknar byrðar á heimilin eða atvinnustarfsemina í landinu.

Við teljum að með kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna geti skapast tekjur fyrir ríkið sem geta numið allt að 40 milljörðum. En ég ítreka að um þetta verður að ríkja víðtæk sátt eins og reyndar um allar aðrar aðgerðir og aðra valkosti sem við stöndum frammi fyrir. Því að nákvæmlega sama mun eiga við um þann mikla niðurskurð sem við stöndum frammi fyrir og mun þurfa að eiga sér stað þrátt fyrir að menn fari þessa leið og að sjálfsögðu gildir það líka um þær skattahækkanir sem stjórnvöld eru farin að boða að við eigum von á að fá inn á þingið. Það litla sem gert hefur verið hingað til í því efni er okkur alveg næg vísbending um það hversu mikill órói og ósátt getur verið um aðgerðir af þessum toga.

Við teljum að meðal þess sem við eigum að læra af því sem gerst hefur hér undanfarin ár sé að meiri samhæfingu þurfi í fjármál ríkis og sveitarfélaga og tryggja að þau styðji betur við peningamálastefnuna. Og við skulum ekkert vera að draga það að bregðast við þessum lærdómi. Ljóst er að þarna skorti alla samhæfingu undanfarin ár og við skulum nú þegar hefjast handa við að tryggja það að hún verði meiri til lengri tíma vegna þess að allt mun þetta hafa áhrif á vaxtastig og gengi krónu á komandi árum.

Varðandi fjármálamarkaðina þá teljum við einfaldlega að það hafi tafist of lengi að endurreisa bankakerfið. Við teljum hins vegar vel hægt að gera það en gæta þarf að því að ríkið taki ekki á sig of mikla áhættu og of miklar skuldbindingar við endurreisnina og við bendum á leiðir sem við teljum raunhæfar til að koma á fót starfhæfu bankakerfi. En þarna erum við líka að benda á að við eigum að draga lærdóm af því sem gerst hefur. Við skulum fara yfir regluverk fjármálamarkaðarins, tryggja meira gagnsæi, ekki koma bönkunum aftur í hendur einkaaðila án þess að tryggja dreifðari eignaraðild. Við skulum sjá til þess að eigendur bankanna séu ekki í jafnvíðtækum viðskiptum við sína eigin banka og verið hefur undanfarin ár vegna þess að það er án vafa meðal þess sem við eigum að læra af því sem gerðist hér að regluverkið um þessa þætti var of losaralegt.

Og varðandi endurskoðun peningamálastefnunnar, sem ég hygg að jafnvel þrjár síðustu ríkisstjórnir hafi haft á dagskránni hjá sér og núverandi ríkisstjórn er með í farvatninu uppi í Seðlabanka, þá teljum við mikilvægt að ekki einungis þeir sem eru ábyrgir fyrir framkvæmd peningamálastefnunnar komi að því máli heldur líka utanaðkomandi aðilar. Við teljum rétt að taka með í þá skoðun möguleikana á því að vera áfram með krónu. Það er rétt, eins og forsætisráðherra hefur lagt upp með, að skoða áhrifin af því að ganga inn í myntbandalag Evrópu en við skulum ekki útiloka möguleikana á því að hér verði tekinn upp annar gjaldmiðill. (Forseti hringir.) Fáum það með í þá skoðun sem er búið að hrinda af stað. Það er skynsamlegt, það er uppbyggilegt og það er þörf fyrir það (Forseti hringir.) vegna allrar þeirra vinnu sem er fram undan hér.