137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[11:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að koma með stutt innlegg. Ég lofa frumkvæði Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Mér finnst þetta ítarleg og góð vinna sem hér hefur farið fram án þess að ég taki afstöðu til einstakra þátta. Þetta er mikilvægt innlegg í þá vinnu sem nú á sér stað á mörgum vígstöðvum í þjóðfélaginu og við nýir þingmenn lofuðum okkur sjálfum að líta upp úr flokksræðinu, upp úr þeim hjólförum sem flokkakerfið hefur skapað okkur. Ég held að við ættum öll að hugsa vandlega um efnahagsmálin og taka á móti öllum hugmyndum í þá veru og skoða þær vandlega og yfirvegað.

Ég vil t.d. benda á að þær hugmyndir sem eru fram settar um fyrirtækin og lausnir í vandamálum þeirra eru t.d. til umræðu í efnahags- og skattanefnd um þessar mundir. Þar ríkir þverpólitísk sátt um þær aðgerðir sem menn horfa til.