137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:02]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrir það fyrsta hæla sjálfstæðismönnum fyrir að setja fram þessa tillögu og þá kannski sérstaklega þá greinargerð sem fylgir tillögunni.

Þegar ég les kaflann um peningamálastefnuna sé ég að skuldaskilanefnd Sjálfstæðisflokksins kemur fram með nýja sýn á pappírum sínum. Núverandi forusta Sjálfstæðisflokksins er að gera upp við þá gömlu.

Ég get tekið undir hvert einasta orð sem stendur í kaflanum um peningamálastefnuna. Og frá Sjálfstæðisflokknum kemur lýsing á þeirri stefnu, þessi iðja leiddi til þenslu, með leyfi forseta:

„Peningastefnan beit í skottið á sér.“

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, ég þakka forustu Sjálfstæðisflokksins fyrir þau skuldaskil sem hér eru sett fram. Það vantar í raun og veru ekkert nema: Við biðjum þjóðina afsökunar á þessari kolröngu stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að framfylgja öll þessi ár. (Gripið fram í.) — Með forsætisráðuneytinu, setur þar með sjálfstæðismenn í seðlabankastjórastöðu o.s.frv.

Ég kem betur inn á þá tillögu í ræðu minni á eftir, en spurning mín til hv. þingmanns, núna formanns Sjálfstæðisflokksins, er þessi: Voru það mistök sem gerð voru varðandi húsnæðislánakerfið árið 2004 að hækka lánshlutfallið?