137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun fyrrverandi umhverfisráðherra sem hv. þingmaður vísar til hefði ekki seinkað þeirri framkvæmd um einn einasta dag. (TÞH: Annað segir fyrirtækið.) Staðan í því máli er — (KÞJ: Reynið að vera jákvæðir.) Það er nú jákvæðni heldur betur. Staðan í því máli er einfaldlega sú að fyrirtækið sem um ræðir hefur ekki treyst sér til þess að taka ákvörðun og það er kannski skiljanlegt í ljósi — (Gripið fram í.) Nei, nei, það var bara ákvörðun sem var tekin af móðurfélaginu að fara ekki í neinar nýfjárfestingar og var gefið út í fréttatilkynningu um allan heim. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að erlendar fjárfestingar þarf inn í landið.

Hv. þingmaður sagði áðan, og ég gat ekki svarað því, að það þyrfti stefnu um orkuafhendingu. Þar kem ég aftur að hnífnum sem stendur í kúnni, að okkur skortir getu til þess að fá fjármagn til að ráðast í virkjanir, eins og t.d. fleiri holur og orkuöflun á Þeistareykjasvæðinu, og að ganga frá Búðarhálsvirkjun. Við höfum hana ekki í dag. Þess vegna talaði ég um þann möguleika sem fólst í einkamarkaðnum og lífeyrissjóðunum.