137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eldist hratt og minni hans reskist allverulega. Hv. þingmaður nefndi rammaáætlunina og Árósasamkomulagið. Frú forseti. Hvort tveggja voru partar af stefnuyfirlýsingu sem ég tók þátt í að semja á Þingvöllum 2007. Rammaáætlunin er partur af þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn studdi. Hún er ekki í neinni töf. (REÁ: Þetta er rangt.) Nei, það er rétt. Hún er ekki í neinni töf. Sagt var frá því að á þessu ári ætti henni að ljúka. Þannig var það þegar við vorum saman í stjórn hérna fyrir tveimur árum (GÞÞ: Ekki töf?) — henni mun ljúka fyrir þann tíma eftir því sem ég best veit. Og ég veit ekki betur en að á þessu sumri muni menn kynna líka einhverja parta af henni. Það liggur alveg ljóst fyrir. Er ég þá búinn að svara því? (Gripið fram í: Nei, nei.) Það er vegna þess að hv. þingmaður virðist ekki nota eyrun til þess að hlusta.

Staðreyndin er sú að við og Sjálfstæðisflokkurinn gerðum ákveðið samkomulag um hvernig ætti að vinna þau mál. Það samkomulag hefur verið tekið upp (Forseti hringir.) af báðum seinni ríkisstjórnunum sem hafa starfað í kjölfarið.