137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:49]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mikil þörf er á því um þessar mundir að telja kjark í þjóðina og ekki síður í ríkisstjórnina — ekki síður í ríkisstjórnina vegna þess að ríkisstjórnin er fallin fyrir borð í þeim verkefnum sem hún hefur ætlað sér að vinna.

Sú tillaga sem sjálfstæðismenn leggja nú fram markar ákveðin tímamót í vinnubrögðum á Alþingi til seinustu áratuga. Ígrunduð, markviss og metnaðarfull tillaga um að ganga til verka og létta á þeim vanda sem hvílir á íslenskri þjóð í dag. Það eru nýmæli til margra áratuga að stjórnarandstöðuflokkur komi með slíkan gullklump að borði ríkisstjórnarinnar til að vinna úr. (ÁÞS: Ekki er það nú alveg.) Ekki eru önnur dæmi þess að slíkt sé lagt fram á því stigi sem nú er. Oft hafa menn komið með ýmsar tillögur en þarna er komið með lausn sem er skilvirk til allra þeirra þátta sem á brennur.

Hæstv. ríkisstjórn hefur verið að véla um hluti og þætti en ekki síður að komast hjá því að véla um atriði og þætti sem veldur því að íslensk þjóð er nú að fara úr kreppu yfir í kaos. Úr kreppu yfir í kaos. Þetta eru tvö þung orð en það síðara er verra vegna þess að þar kemur verkleysi á bak við og skortur á verkviti. Og það er kannski það sem vantar í stjórn landsins í dag, það er verkvit, reynsla og verkvit sem skilar árangri. Þrek og þor til að taka ákvarðanir og horfast í augu við vanda en standa ekki bara og bíða eftir örkinni frá Evrópu. Það gerir hæstv. ríkisstjórn í dag, hún bíður eftir örkinni frá Evrópu.

Ég veit ekki hvort hæstv. samgönguráðherra sé búinn að marka einhverja leið í þeim efnum fyrir örkina. (Gripið fram í.) En hann er einn af þeim sem hafa verið blindaðir í því að fá nútímaörk, ekki örkina hans Nóa heldur örkina Evrópu til Íslands og flytja vandann í heilu lagi yfir á Evrópusvæðið þar sem búa stórþjóðir sem aldrei hafa hugsað um lítilmagnann, hvorki Siglfirðinga — sem eru náttúrlega stórhuga menn og snillingar — né aðra.

Það var svolítið sérstakt að heyra hvað hv. þm. hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson fagnaði þessum tillögum. Honum fer reyndar oft vel að horfa mót sólfarsvindunum en hann hefur kannski áttað sig á því núna að hann á líklega hvergi annars staðar heima í hinu pólitíska litrófi en í Sjálfstæðisflokknum, stærsta og einlægasta jafnaðarflokki Íslands. Það er nú það sem blasir við.

Í tillögu sjálfstæðismanna er tekið á atriðum sem snúa að meginkjarna vandans sem blasir við, vanda heimilanna og fyrirtækjanna, fjármálum hins opinbera, fjármálum á mörkuðum og peningastjórn. Auðvitað eru margar fleiri tillögur og hugmyndir en hér liggja fyrir sem vert væri að skoða og fylgja eftir en þarna er reynt að hnýta saman á markvissan hátt þau atriði sem brýnast er að koma til verka. Þessar tillögur fela í sér að hægt er að ganga að meginþorra þessara verkefna á næstu fjórum vikum ef hæstv. ríkisstjórn hefur döngun í sér til að bretta upp ermar og spýta í lófana og taka á verkum í staðinn fyrir að láta tímann líða og vandamálin flæða yfir. Hin atriðin sem fjallað er um í tillögu sjálfstæðismanna ættu að vera komin til niðurstöðu eftir ítarlega skoðun innan þriggja mánaða.

Það er ekki seinna vænna að fara að vinna í þessum málum og taka á þeim en gefa ekki tommu eftir og þora að taka á. Þau þrjú atriði sem lúta að heimilunum sjálfum, lækkun greiðslubyrði húsnæðislánanna um allt að 50% á þremur árum, afnám stimpilgjalda, drifkraftur og fjölbreytt uppbygging í orkufrekum iðnaði ásamt fleiri þáttum í auðlindastýringu eru þættir sem mest brennur á um leið og bankakerfið verður að komast í gang.

Það er sorglegt að þurfa að segja að bankakerfið er í tómri tjöru, það fúnkerar ekki, það er engin hugsun í því. Menn bíða þar með skálmarnar niður á tám og vita ekkert hvað þeir eiga að gera. Á sama tíma vogar hæstv. ríkisstjórn sér að hóta íslenskri þjóð með fyrningarleið sem er ekkert útfærð einfaldlega vegna þess að ekki er hægt að útfæra hana og síst af öllu við þær aðstæður sem nú eru. Hæstv. ríkisstjórn er með þeirri boðun að hóta að færa kreppuna úr þéttbýlinu yfir í dreifbýlið og nú reynir á talsmenn dreifbýlisins sem hafa verið þekktir fyrir að verja hag hinna dreifðu byggða landsins. Virðulegi forseti. Nú reynir á hversu fast þeir standa í ístaðinu.

Kynningin á fyrningarleiðinni er svo alvarleg að það er ekki hægt fyrir neina ríkisstjórn að setja slíkt fram án þess að hafa ígrundaða stefnu þar að baki, ígrundaðar leiðir, ígrundaða fyrirvara á mörgu sem hlýtur að koma fram ef slíkt gengi yfir. Við kvörtuðum yfir því að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Að mínu mati, virðulegi forseti, er hugmyndin um fyrningarleiðina eins og hún hefur verið kynnt hryðjuverkaárás á Ísland. Það getur vel verið að slátrun sjávarútvegsins mundi gefa peninga í einhverja mánuði en ekki lengur. 50–60% af tekjum Íslendinga koma frá sjávarútveginum þó að það hafi verið feimnismál, endalaust feimnismál í sögu Íslands af því að því fylgir slorlykt. Fyrningarleiðin mundi slátra sjávarútveginum, stöðu sjómanna, fiskvinnslufólks, sveitarfélaga, bæjarfélaga og ríkis vegna þess að þar er ekki hugsað neitt til enda. Þær tillögur sem hér eru til umræðu eru (Forseti hringir.) leið til þess að sigla út úr þeim vanda sem nú er, sigla út úr brimgarðinum og þess vegna er ástæða til að hvetja til (Forseti hringir.) samstöðu um þær.