137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hlýða á þá umræðu sem átt hefur sér stað um þessa þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna hér á þingi. Henni er ákaft fagnað af stjórnarliðum, þeim sem hér hafa talað, raunar fyrst og fremst frá öðrum stjórnarflokknum, Samfylkingunni, og það ber að þakka. En í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, ekki síst í ljósi orða formanns Framsóknarflokksins, leyfir maður sér að efast um það hversu mikil heilindi eru á bak við þá mærð sem skín úr orðum stjórnarliða. En úr því að hæstv. samgönguráðherra hefur gert töluvert, bæði í andsvörum og sinni ræðu hér, úr því að þetta sé liður í því að sjálfstæðismenn séu að gera upp við fortíðina, án þess að fara mjög langt aftur í það, væri kannski æskilegt að hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn frá Samfylkingunni gerðu upp við sína fortíð þó ekki væri lengra aftur en til febrúar — gerðu þá upp við Framsóknarflokkinn og þann stuðning sem hann veitti þáverandi minnihlutastjórn. Það væri fróðlegt að heyra það uppgjör, hvernig það mun koma til.

Í tengslum við þessa umræðu hefur komið fram sá einbeitti vilji hæstv. samgönguráðherra að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það hefur verið upplýst í orðum hans að fyrirspurnum frá erlendum fjárfestum, sem flestir virðast vera sammála um að séu nauðsynlegir hér inn í landið, verður ekki svarað fyrr en við getum veitt þeim svar við þeirri spurningu hver verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar og hvenær hann verði tekinn upp. Ég spyr þá hæstv. samgönguráðherra: Hver verður framtíðargjaldmiðillinn? Hvenær getur hann svarað því hvenær það liggi fyrir og undir hvaða skilmálum? Fram til þess tíma að hæstv. samgönguráðherra getur gefið fyrirspyrjendum (Forseti hringir.) þessi svör bíða þá allar erlendar fjárfestingar?