137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:13]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hluti af fortíðarvanda Sjálfstæðisflokksins, vandanum sem hann þarf að gera upp við sig sjálfur eins og hann er að gera í þessari tillögu um ýmsa aðra þætti, og brýt ég nú það samkomulag að strá meira salti í sárin en get ekki annað þegar hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir að það sé ekkert verið að gera.

Það er verið að gera mjög marga hluti. Svo getum við haft skoðanir á því hvort þeir gangi of hægt, það er annar handleggur. (Gripið fram í.) Eins og t.d. með bankakerfið, virðulegi forseti. Hvers vegna hefur ekki gengið að klára uppgjörið milli gömlu og nýju bankanna hvað varðar … (Gripið fram í.) Það er vegna þess, virðulegi forseti, að við erum með hér á landi oft og tíðum fulltrúa kröfuhafa sem áttu 12 þús. milljarða kr. inni hjá þessum bönkum sem allir fóru á hausinn. Ætli það sé nokkuð óeðlilegt við það að þeir séu ekki mjög kátir hér á landi við það að klára að búa til og gera upp? (Gripið fram í.) Ætli það sé ekki hluti af fortíðarvandanum, virðulegi forseti? Ætli það sé ekki hluti af þeim vanda hve hægt gengur að gera upp milli gömlu og nýju bankanna vegna þess að hér eru þeir aðilar sem lánuðu til Íslands og eru að tapa stórum hluta af þeim peningum. Ætli þeir séu nokkuð að flýta sér? Ætli það geti verið, virðulegi forseti, að þeir hugsi sem svo: Þetta getur ekki verið verra en það getur vel verið að það batni og þá borgi sig að geyma það að ganga frá og skrifa undir uppgjörið? (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er líka (Forseti hringir.) eitt í viðbót, virðulegi forseti.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill beina þeim tilmælum til hv. þingmanna að hafa hljóð á meðan ræðumaður talar.)

Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, virðulegi forseti, þótt þeir þrír sjálfstæðismenn sem grípa hér mest fram í séu dálítið órólegir núna þessar stundir þegar verið er að gera upp við fortíðina, þegar skilanefnd Sjálfstæðisflokksins er í raun og veru að skila af sér með þessari þingsályktunartillögu.