137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmönnum varð tíðrætt um heiðarlegt uppgjör í þessu plaggi — ég geri þá ráð fyrir að vitnað sé til hinnar snilldarlegu setningar sem ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í og er í greinargerð með þingsályktunartillögu þessari. Þar segir:

„Eftir nánast samfelldan hagvöxt frá árinu 1995 kveður við nýjan tón.“

Þetta er uppgjörið við ömurlega hagstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og einkavinavæðingu bankanna og þess hruns sem í kjölfar þess varð.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið í máli mjög margra þingmanna, jafnt stjórnarþingmanna sem stjórnarandstöðuþingmanna, að þetta plagg er mjög jákvætt innlegg inn í þá umræðu sem við erum í og þurfum að vera í á næstu árum í endurreisn íslensks efnahags og samfélags. Auðvitað er ég ekki fullkomlega sammála öllu sem hér stendur en margt af því er í anda þess sem þegar er í gangi hjá ríkisstjórninni og ég held að það skipti miklu máli að við eigum góða samvinnu á þeirri vegferð.

Mig langar, virðulegi forseti, að koma örstutt inn á þær aðstæður sem ríkja í samfélaginu. Eins og við höfum þörf á að líta til framtíðar til að komast út úr þessum ógöngum þá erum við enn bundin af fortíðinni. Við erum að fást við vanda innan bankakerfisins, í efnahagsstjórninni og í fjármálum heimilanna sem hindrar okkur í að horfa til framtíðar. En við verðum náttúrlega að horfa til framtíðar því án framtíðarvonar verður ekki mikið úr áformum okkar. Þess vegna vil ég fagna sérstaklega andsvari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem tók af öll tvímæli um það að Evu Joly yrði gert kleift að starfa hér áfram sem ráðgjafi. Jafnframt, út af þeirri tortryggni sem gætir í samfélaginu, og það kannski ekki að ástæðulausu, er full ástæða til þess að við sem förum með löggjafarvald veitum framkvæmdarvaldinu aðhald og séum gagnrýnin á meðferð mála í stjórnkerfinu.

Virðulegi forseti. Ef við lítum til þeirrar framtíðar, sem ég held að við viljum móta hér sameiginlega og í sem mestri sátt, og snúum okkur að efni þessarar þingsályktunartillögu, þá eru hér tillögur varðandi heimilin, þ.e. að myndaður verði sérfræðingahópur og rýmkuð verulega skilyrði fyrir því að heimilin geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána. Yfirlýsing hefur komið frá ríkisstjórninni og hæstv. forsætisráðherra um að þessi mál verði skoðuð eftir því sem upplýsingar birtast um stöðuna. Í málstofu Seðlabanka Íslands klukkan þrjú í dag verður farið yfir rannsókn þeirra á stöðu heimilanna. Það eru mjög mikilvægar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra svo að aðgerðir í þágu heimilanna verði markvissar.

Varðandi fjármál hins opinbera tek ég heils hugar undir það að tryggja þurfi framkvæmd fjárlaga ársins 2009, að þar verði ekki viðbótarhalli, og verið er að vinna að því að skerpa ráðuneytin í að halda sig innan fjárlagaramma. Um að upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og framkvæmd fjárlaga verði kynntar Alþingi þá eru þetta náttúrlega upplýsingar sem eru stöðugt til umræðu í fjárlaganefnd og ég get ekki séð annað en að þær séu aðgengilegar þeim sem það vilja í þinginu. (Gripið fram í: … í nefndinni.) Já. Þá held ég að það væri mjög eðlilegt að hv. þingmenn í nefndinni, sem og aðrir sem áhuga hafa, beiti sér í fyrirspurnum í þeim efnum. Það er þeim frjálst og ekki þarf þingsályktunartillögu um slíkt.

Ég ætla einnig áður en ég kem að tillögunni um lífeyrissjóðina að taka undir það að settar verði fjármálareglur fyrir ríki og sveitarfélög til að veita samhæfingu og styðja sem best við peningastefnuna. Það hefur staðið til lengi. Vinna hefur verið í þá átt en ég tek heils hugar undir það að þetta er eitthvað sem verður að gera. Ég veit að það kemur ekkert fram um fjármálareglur sveitarfélaga nema í lögum um sveitarfélög og ég veit að sveitarfélögin eru tilbúin í þessa vinnu af fullum hug. En ég held líka að fara þurfi ítarlega yfir tekjustofna sveitarfélaga, sérstaklega á næstu árum þegar mjög mun reyna á þau í nærþjónustu og velferðarþjónustu við heimilin í landinu.

Svo tel ég að það sem kemur hér fram um fjármálamarkaði og peningamálastjórnina sé meira eða minna í gangi og það er ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera farinn að sjá ljósið sem við samfylkingarfólk sjáum svo sannarlega við enda ganganna sem er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru.

Ég hef ákveðnar efasemdir um tillöguna er varðar lífeyrissjóðina, en mér finnst samt sem áður hún vera þess eðlis að hana beri að skoða mjög gaumgæfilega. Við erum ekki í þeirri stöðu að geta slegið út af borðinu tillögur sem geta verið raunhæfar. Ég veit, virðulegi forseti, að bæði Samtök atvinnulífsins og aðrir, verkalýðshreyfingin, hafa áhyggjur af þessari tillögu en virðast þó tilbúnir til að ræða hana að einhverju leyti. Við þurfum samt að gera okkur grein fyrir því að tillagan felur það í sér að það dragi úr fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna og ef við förum að eiga við þetta kerfi þá þurfum við líka að finna lausn sem tryggir að réttindamismunur verði ekki ýktur á milli opinberra starfsmanna og starfsmanna í almennum lífeyrissjóðum. Við megum ekki gleyma því að opinberir starfsmenn njóta ríkisábyrgðar á sínum lífeyrisréttindum sem starfsmenn á almenna markaðnum gera ekki. Það er því mjög mikilvægt að hafa það í huga þegar á að fara að vinna með hugmyndir um þessi kerfi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson talaði um það að honum hefði þótt skorta á heildstætt plan. Ég upplýsi hv. þingmann um það að til grundvallar stjórnarsáttmálanum sem nú er í gildi þá er m.a. ritið Skal gert til. Ég get útvegað honum það rit sem er heildstæð áætlun Samfylkingarinnar um endurreisn íslensks samfélags, mun ítarlegri en þessi ályktun. Þegar við förum að ræða þessa þingsályktunartillögu í efnahags- og skattanefnd þá væri ánægjulegt ef hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefði kynnt sér það rit einnig og þá gætum við farið í enn ítarlegri og málefnalegri umræðu.