137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í haust varð hrun. Í kjölfarið kom atvinnuleysi og mjög erfið staða heimilanna vegna þess að gengi krónunnar hrundi. Þetta er ákveðin staðreynd sem liggur fyrir og ég held að enginn efist um.

1. febrúar tók við ný ríkisstjórn, eftir stjórnarskipti, og boðaði kosningar. Fyrsta verkefnið var að koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum. Það tók einhverjar vikur, mánuði, næsta verkefni var að reyna að setja á stjórnlagaþing og það tók restina fram að kosningum, eiginlega alveg fram að kosningum. Síðan kom prófkjör, kosningar og allt og það var ekki tekið á neinu. Eftir að nýtt þing kom saman er það Evrópusambandið sem tekur hug manna, hæstv. ríkisstjórnar, og núna Icesave. Menn taka ekkert á vandanum, frú forseti. Það er það sem ég er að segja. Það er ekki tekið á vandanum.

Vandinn er þannig að þetta er verkefni, þetta er verkefni til að leysa, þetta er bara eitthvað sem menn eiga að horfast í augu við og sjá að þarna er atvinnuleysið svona mikið, staða heimilanna er svona, það er einmitt verið að kynna það núna, skýrsla frá Seðlabankanum sem hefði átt að liggja fyrir löngu síðan fyrir, um stöðu heimilanna o.s.frv. og ég er spenntur að sjá hvernig það er. Þetta er verkefni sem stjórnmálamenn eiga að taka á. Þeir hafa bara ekki gert það. Það er eins og það sé ákveðin verkfælni í gangi, sem er dálítið slæmt. Menn koma ekki með raunhæfar aðgerðir fyrir heimilin, menn taka ekki á ríkisfjármálum, jafnvel þó að nú sé komið fram á mitt ár, frú forseti, og vandinn er auðvitað sífellt meiri og meiri eftir því sem menn fresta því að taka á. Menn bökkuðu meira að segja með aðgerðir sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði farið í. Það var bakkað með þær. Sá niðurskurður sem menn voru búnir að sættast á var gefinn frjáls aftur.

Svo tóku menn ákvörðun um að halda áfram með tónlistarhúsið, útgjöld aftur, einhverjir milljarðar, allt í gjaldeyri eða mikið af því í gjaldeyri. Menn hafa ekki einungis látið vera að taka á vandanum í fjárlögum ársins 2009 heldur líka gefið lausan tauminn.

Svo á eftir að ganga frá árinu 2010 og til 2013. Það þýðir niðurskurð o.s.frv. Það er líka verkefni, frú forseti, þetta er allt verkefni, þetta er ekki vandi, þetta er ekki vandamál. Þetta er ekki óleysanlegt, þetta er verkefni sem menn eiga að takast á við. Til dæmis gætum við tekið ákvörðun um það að bakka með velferðarkerfið meira og minna í 4–5 ár, bakka aftur til ársins 2005, eitthvað svoleiðis og segja: Við skulum bara taka til baka allar þær aðgerðir sem hafa bætt stöðu velferðarkerfisins af því að við höfum ekki efni á þeim og tökum þær upp seinna. Það þarf að skera verulega niður og það er eitthvað sem ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera.

Það sem er mikilvægast náttúrlega fyrir utan það að koma ríkisfjármálunum í lag er að koma bönkunum í gang. Það er búið að frestast og frestast og frestast. Því þótti hv. þingflokki Sjálfstæðisflokksins nóg komið og ákvað að fara út í aðgerðir, raunverulegar aðgerðir til að taka á þessu og bjóða fram krafta sína til að finna lausn sem menn hafa ekki enn þá fundið. Ég undirstrika það að hér er tillaga til þingsályktunar sem verður vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og ég reikna með því að nefndin muni taka á því máli og hugsanlega breyta, koma með nýjar hugmyndir, koma með enn frekari aðgerðir. Ég nefndi t.d. skyldusparnað sem ég hef viljað skoða betur og þó að það séu ekki tekjur inn í ríkissjóð þá virkar það svipað og menn eiga að vera opnir fyrir öllum hugmyndum sem upp geta komið.

Það sem mér virðist skorta á er að menn hafi skýra sýn til framtíðar, átti sig á að svona er staðan, þetta er vandinn, við leysum hann með þessum og þessum hætti og hafa til þess skýra sýn og þessi tillaga til þingsályktunar er skýr sýn til framtíðar. Svona ætlum við að leysa málið þannig að við stöndum með þessum hætti eftir 3–4 ár þegar versta áfallið er yfirunnið. Fyrst og fremst er stefnt að því að bæta stöðu heimilanna og ég nefni t.d. að minnka atvinnuleysið. Það er einn aðalvandi heimilanna, lækka greiðslubyrði, sérstaklega þeirra sem eru atvinnulausir og hafa litla peninga til ráðstöfunar, að menn geti bara með einfaldri tilkynningu tilkynnt: Ég ætla mér næstu þrjú árin að borga helminginn af því sem ég borgaði fyrir hrun. Það má miða við ákveðinn dag, t.d. má miða við mánuðinn ágúst — ég ætla mér að borga frá þeim tíma helminginn af því sem ég borgaði fyrir hrun og það ætla ég að gera næstu þrjú árin. Þetta væri einföld tilkynning og þetta mundi bætast við aftan við lánið, hvers lags form sem er á því láni ella. Það getur verið yfirdráttur, það getur verið íbúðarlán o.s.frv. Þetta væri sjálfgert.

Um leið mundi ég leggja til að við skoðuðum líka að fella niður uppgreiðslugjald hjá Íbúðalánasjóði, alla vega ef það verður mikið um að menn fresti lánum, þá ætti Íbúðalánasjóður með nákvæmlega sama hætti að geta leyft aukainngreiðslur því að mjög margir sem hafa komið að máli við mig vilja greiða upp. Þeir vilja gera upp skuldir sínar, eiga kannski einhverja innstæðu og vilja nota hana til að gera upp. Stimpilgjaldið verður afnumið, það er náttúrlega gamalt baráttumál. Varðandi fyrirtækin er mjög mikilvægt að við þá endurskipulagningu sem nú er í gangi sé gætt jafnræðis, sanngirni og gagnsæis og það sé jöfn meðferð skuldara. Eins þegar menn byrja að selja fyrirtækin, þá er verulega mikilvægt til að það sé traust í gangi að menn fari þar rétt fram og með gagnsæjum hætti.

Ég er búinn að nefna fjármál ríkisins og ég vil benda á að maður sem fær vinnu en var atvinnulaus breytist úr því að vera kostnaður fyrir ríkissjóð, þ.e. hann þáði atvinnuleysisbætur, í það að vera skattgreiðandi. Tekjur ríkissjóðs vaxa og gjöldin minnka við þessa einu breytingu. Það þýðir að staða ríkissjóðs batnar. Þess vegna á að leggja ofuráherslu á að auka atvinnu í landinu. Virkja eins og hægt er, lokka erlenda fjárfestingu inn, gera allt sem hægt er til að auka atvinnu. Þeir sem ekki vilja virkja og segja: Við getum gert eitthvað annað, endilega, gerið eitthvað annað. Komið með það líka. Það vantar svo mörg störf. Við skulum líka koma með þau störf sem menn sjá þar, t.d. í ferðamannaþjónustu o.s.frv.

Fjármálamarkaðurinn. Það verður að loka efnahag bankanna. Það verður að klára að stofna bankana. Það þarf að móta framtíð fyrir bankana, hvað við ætlum að gera við þá, hvernig við ætlum að selja þá o.s.frv. Það þarf líka að auka gagnsæi á eignarhaldi á fjármálamarkaði. Það er mjög mikilvægt að byggja aftur upp traust á hlutabréfamarkaði. Það traust hefur illa brunnið í þessum átökum öllum og hluti af því er nefnilega það sem efst er á baugi núna, það er saksóknari. Það er mjög mikilvægt að þeir séu fundnir sem hugsanlega hafa brotið lög því það á að gefa það merki, ekki út af einhverri refsigleði, heldur á að gefa það merki að í atvinnulífinu brjóta menn ekki lög. Menn halda lög og reglur og þannig verður byggt upp traust. Umræðan um saksóknara er hluti af því að byggja upp traust á markaði.

Það þarf að endurskoða peningastefnuna og huga að framtíðarskipulagi gjaldeyrismála. Við nefnum líka að það megi breyta reglum um gjaldeyrishöft þannig að nýjar erlendar fjárfestingar falli ekki undir höftin og það er nefnt líka að það sé hugsanlegt að gera samkomulag um að jöklabréfum svokölluðum verði breytt í ríkisbréf og svo þarf að vinna að því að minnka umfang verðtryggingar og auka framboð óverðtryggðra lána þannig að við hverfum frá þessari stefnu að vera með tvær myntir í landinu, aðra verðtryggða og hina óverðtryggða.

Það er lagt til að þetta gerist allt mjög hratt. Menn þurfa að vinna hratt, bara í einn til tvo mánuði, menn þurfa að setjast niður, taka ákvarðanir og klára málin. Ég vænti þess að starfið í nefndinni verði mjög viðamikið og unnið hratt. Ég er ekkert hræddur við það að vera á fundi á hverjum einasta degi í hv. efnahags- og skattanefnd.

Ég vil geta alls þessa vegna þess að mönnum finnst þetta kannski allt fullsvartsýnt, en það eru góð teikn á lofti. Frá 6. mars sl. hefur eitthvað undarlegt gerst úti í heimi. Allar vísitölur hafa hækkað, olíuverð hefur hækkað og álverð hefur hækkað, frá 6. mars virðist allt vera á uppleið. Ég vil kannski ekki vera að spá því, ég er búinn að gera það svo oft, en ég held að þetta séu ákveðin teikn sem geta verið mjög jákvæð og eiga að auka mönnum bjartsýni.