137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þessa ágætu þingsályktunartillögu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hún er ágætlega rökstudd í ítarlegri greinargerð sem fylgir með og ætla ég á eftir að fara aðeins í gegnum hana.

Ég vil þó í upphafi benda á, frú forseti, að núna eru tæplega 90 dagar síðan þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram á Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Í tæpa 90 daga hafa þær tillögur verið til umfjöllunar hjá efnahags- og skattanefnd, þ.e. það eru 90 dagar síðan þeim var vísað til nefndarinnar, frú forseti.

Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan um að það þurfi að vinna hratt og hann sé ekki feiminn við að vinna veit ég það og trúi vel, enda hefur ekki annað orð farið af hv. þingmanni, en hið sama verður ekki sagt um nefndina sem slíka ef jafnveigamikil mál og þessi eru hátt í 90 daga, hátt í þrjá mánuði, í nefndinni. Ég hefði haldið fyrir fram sem nýliði á þingi að með svo stór mál ynnu menn hraðar og beittu sér af ákefð fyrir því að þær tillögur sem eru lagðar fram fengju skjóta afgreiðslu því að um gríðarlega stórt mál er að ræða.

Tillaga þingflokks Framsóknarflokksins var í 18 liðum og var lögð fram, eins og kunnugt er, vegna þess að þeim hópi þótti frekar lítið koma frá ríkisstjórn þess tíma um lausnir til handa heimilum og fyrirtækjum og hvernig ætti að halda áfram með atvinnulífið og reisa efnahagslífið við. Þær tillögur sem koma síðan fram í 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar eru frekar fátæklegar og nú styttist sá tími hratt, þessir 100 dagar, sem ríkisstjórnin gaf sér til að koma ákveðnum málum fram. Það gengur býsna hratt á þann tíma og því miður hefur lítið áunnist í þessum stóru málum. Þess vegna ítreka ég það, frú forseti, að efnahags- og skattanefnd taki til hendinni og fjalli um þær tillögur sem vísað hefur verið til hennar vegna þessara stóru mála og afgreiði þau frá sér.

Í tillögu þeirri sem þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram eru, eins og sagði áðan, tíunduð í 18 liðum helstu atriði sem þarf að vinna að. Það hefur komið fram fyrr í dag í máli nokkurra þingmanna hvaða tillögur þetta eru og ætla ég ekki að fara í gegnum þær lið fyrir lið en það er athyglisvert að í áðurnefndri 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar er að finna atriði sem eru í þessari þingsályktunartillögu sem Framsóknarflokkurinn setti fram, t.d. punkturinn um að loka skuli mikilvægum samningum til lausnar vegna erlendra eigenda krónubréfa. Ég velti fyrir mér hvar það mál sé statt því að frá febrúar hefur legið fyrir tillaga um að klára þetta mál.

Síðan er mjög stórt mál í 100 daga áætluninni sem tengist efnahagsmálunum mjög sterkum böndum. Í raun er ekki hægt að ræða um efnahagsmál framtíðarinnar nema taka það mál inn í og það er, með leyfi forseta:

„Lokavinna við samninga um erlendar kröfur – Icesave.“

Í rauninni er alveg furðulegt að standa hér og tala um efnahagsmálin og fjármál ríkisins án þess að hafa staðfestar upplýsingar um það hvernig staðan er á þessu blessaða Icesave-máli. Hér eru tölur uppi, tölur í fjölmiðlum og ýmislegt sagt sem passar ekki hvað við annað. Eru þetta rúmir 700 milljarðar eins og haldið er fram í dag? Svo virðist vera ef lánin eru reiknuð upp því að þá kemur í ljós að þetta er miklu hærri upphæð en ríkisstjórnin hefur látið í veðri vaka eða sagt frá. Því veltir maður fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að ræða við þingmenn um lausn á þessu máli í heild, þ.e. ræða efnahagsmálin, lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar, svokallað Icesave-mál ásamt öðrum málum er snerta það, áður en teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir sem geta sett efnahagslíf þjóðarinnar til framtíðar í mikla óvissu, dottið fyrir borð hreinlega eða einhvern veginn í þá veru orðaði einhver hv. þingmaður það í dag.

Þessu tengist líka annað stórt mál sem er málefni heimila og fyrirtækja. Frétt á fréttamiðlinum pressan.is vakti athygli mína í gær. Þar er vitnað í tölvupóst forstjóra Kaupþings sem hann sendi starfsmönnum sínum um stöðu heimila og þá vinnu sem er í bankanum út af henni. Með leyfi forseta stendur m.a. í þessum tölvupósti:

„Stjórnvöld hafa ítrekað sagt að ekki standi til að lækka skuldir heimilanna með flötum niðurskurði. Það blasir hins vegar við að þau úrræði sem þegar hafa verið kynnt munu ekki duga eða eru of þung í vöfum til að gagnast nægilega vel.“

Það er mjög mikilvægt að í umræðu um efnahagsmál, frú forseti, sé haft í huga að það verður greinilega að grípa til róttækra aðgerða til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum. Ef þeir sem eru að vinna með þessum aðilum, fólkinu og fyrirtækjunum, segja það á prenti, svart á hvítu, að þessar aðgerðir virki ekki hljótum við að krefjast þess að komið verði fram með nýjar lausnir. Í efnahagstillögum Framsóknarflokksins sem lagðar voru fram í byrjun febrúar er einmitt tekið á þessu máli. Þá eru lagðar fram tillögur til lausnar sem munu gagnast hratt og örugglega.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði áðan að fjölga þyrfti skattgreiðendum. Það er alveg hárrétt, það er nákvæmlega það sem skiptir máli. Þingsályktunartillaga Sjálfstæðisflokks og sú sem framsóknarmenn lögðu fram leggur einmitt þetta til og kemur með tillögu í þá veru að geta fjölgað skattgreiðendum. Ég hef ekki trú á að við náum okkur út úr efnahagsvandanum með því að stórauka skattheimtu á fyrirtæki og einstaklinga eða eingöngu með því að skera okkur niður út úr vandanum. Það þarf að auka tekjur, og tekjur aukast með því að fjölga þeim sem eru að vinna og fjölga fyrirtækjum sem greiða skatta. Því er mikilvægt að ríkisstjórnin komi nú þegar — ekki á morgun og setji fram einhverja áætlun eða eitthvað slíkt. Nóg er komið af yfirlýsingum um áætlanir hjá þessari ágætu ríkisstjórn — og setji fram raunhæfar tillögur um það hvernig efla skuli atvinnulífið og fjölga þeim sem greiða skatta.

Í þeirri ágætu þingsályktunartillögu sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sett fram er margt gott sem hægt er að taka undir. Ég hefði þó viljað að í ákveðnum hlutum væri kveðið sterkar að orði, líkt og í kaflanum um heimilin þar sem rætt er um að mynda sérfræðihóp til að fjalla um leiðir til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána. Ég held að strax þurfi að bregðast við í því.

Þá kemur fram í g-lið um fjármagn hins opinbera að upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og framkvæmd fjárlaga verði kynntar Alþingi. Þetta þarf að gera nú þegar. Síðan er hér mjög merkileg tillaga sem ég held að sé mjög mikilvægt að skoða hratt og örugglega varðandi það að skattleggja greiðslu lífeyrissjóðanna þegar við upphaf þeirra þannig að inngreiðslur úr lífeyrissjóði séu skattlagðar. Þetta mundi auka tekjur ríkissjóðs. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að skoða núna strax.

Ekki þarf að fjölyrða um að við þurfum að klára að stofna nýju bankana. Það vita allir um það er forsenda þess að halda áfram og gjaldeyrishöftunum verður að sjálfsögðu að ljúka. Það stendur í 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar að gjaldeyrishöftin verði afnumin sem fyrst eða eitthvað slíkt. Ef ég tók rétt eftir er haft eftir seðlabankastjóra að í fyrsta lagi um áramót verði óhætt að fara í slíkar aðgerðir.

Frú forseti. Tíminn er búinn. Ég legg áherslu á að það er ríkisstjórnarinnar að koma nú strax fram með aðgerðir og tillögur. Ef hún gerir það ekki sjálf (Forseti hringir.) verðum við að fara í mjög vandaða vinnu við þær tillögur sem liggja fyrir og ég óska eftir því að efnahags- og skattanefnd klári vinnu (Forseti hringir.) við tillögur Framsóknarflokksins frá því í febrúar.