137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu Sjálfstæðisflokksins, þingsályktun um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála eins og það heitir. Það er rétt að ég, eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað, fagni því að hér sé lögð fram þingsályktunartillaga með ýmsum úrræðum sem koma inn í það efnahagslega umhverfi sem við búum við í dag.

Það hefur komið fram í umræðunni hér á undan, m.a. frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem var framsögumaður tillögunnar, að tilefni og ástæða þess að leggja fram þessa tillögu hafi verið að bregðast þurfi hratt og örugglega við ástandinu, ýta undir samstöðu og ná samstöðu um að taka óvinsælar ákvarðanir. Það er óhætt að taka undir þennan tilgang, það er rétt að við þurfum að bregðast hratt og örugglega við ástandinu, þ.e. að halda áfram þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin og við þurfum að ýta undir samstöðu í þinginu.

Því miður hefur orðið mikill misbrestur á því að menn hafi leitast við að hugsa í lausnum og tala í lausnum. Sumir virðast hafa haft þann tilgang einan að grugga vatnið, auka tortryggni og skapa frekari óvissu frekar en að reyna að koma með lausnir. Þess vegna ber auðvitað að fagna málefnalegum tillögum sem koma inn í umræðuna.

Það er líka mjög ánægjulegt að sjá að mjög margar af þeim tillögum sem hér eru bornar fram eru í samræmi við þá áætlun sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram, m.a. í 100 daga áætluninni, þar sem kveðið er á um að draga skuli úr gjaldeyrishöftum, loka skuli mikilvægum samningum til lausnar vegna erlendra eigenda krónubréfa. Það er talað um samráðsvettvang og allir vita að í gangi er víðtækt samráð aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar í sambandi við stöðugleikasátt. Það er talað um í 100 daga áætluninni að hefja viðræður við lífeyrissjóðina um það að fá þá til að koma að eflingu atvinnulífs með hinu opinbera, allt þetta er í rauninni í gangi. Það er verið að ræða um ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna, það hefur verið tekin afstaða til þess og það kemur fram í skýringum og hefur komið fram áður að gæta skuli jafnræðis og reyna að hafa gagnsæi og heiðarleika að leiðarljósi.

Það er rætt um að taka skuli ákvörðun um framtíðareignarhald nýju bankanna og mögulegt erlent eignarhald, allt er þetta í 100 daga áætluninni og margt af þessu kemur hér aftur í tillögum Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur að vera ástæða til að fagna því að það er samhljómur þarna á milli og ætti þar af leiðandi að vera hægt að vinna fljótt og vel úr þessum tillögum og keyra þær saman á sem flestum sviðum.

Það er líka talað um að ljúka efnahagsreikningi nýju bankanna og er full ástæða til að taka undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram um afleiðingar þess hve seint hefur gengið að skilja á milli gömlu og nýju bankanna og stilla nýju bönkunum upp sem sjálfstæðum stofnunum og skapa þeim eigið fé. Á þessu liggur og menn hafa fengið hér ítrekað skýringar úr þessum ræðustóli á því hvers vegna þetta hefur verið en þetta er auðvitað farið að þvælast fyrir varðandi uppbyggingu atvinnulífsins.

Þá er einnig í þessu skjali, 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar, verið að ræða um að menn þurfi að leggja fram forsendur fjárlaga fyrir árið 2010 og áætlun í ríkisfjármálum til millilangs tíma og að flutt verði skýrsla um þetta, þ.e. ríkisfjármálin fyrir 2009 og þessi þrjú ár, í þinginu. Ég get upplýst um það að sú vinna er í fullum gangi og síðast í morgun var leitað eftir samráði — eða svona til kynningar gagnvart stjórnarandstöðunni á því hvernig þeirri vinnu er hagað og óskað eftir samstarfi um að reyna að ná þar málum saman og þá að því stefnt að koma fram með slíka skýrslu í næstu viku. Það var áætlun um að koma með bandorm inn í þingið núna á föstudaginn en menn eru að tala um að reyna að sameina þetta og reyna að ná þá utan um heildina því að allir gera sér grein fyrir því að það skiptir gríðarlega miklu máli, upp á trúverðugleika ríkisins gagnvart lánardrottnum og gagnvart þeim aðilum sem við erum í samningum við, að fram komi trúverðugt plagg um ríkisfjármálin, verkefnið er ærið og stórt. Þar er rætt um sparnaðarkerfi og þar er verið að ræða um ýmsar aðgerðir sem grípa þarf til.

Margt af þessu er í þessu plaggi og eins og ég segi, það ber að fagna því. Ég hef stundum sagt það í almennu umræðunni að það hefur verið svolítið undarleg aðkoma — ég kom inn á þing fyrir tveimur árum og skömmu seinna, eða eftir 18 mánuði, stóðum við frammi fyrir því bankahruni sem hér átti sér stað — að horfa upp á það þegar maður leit til baka að öll þau úrræði sem við þyrftum að grípa til núna voru notuð á þenslutímum af þáverandi ríkisstjórn. Þegar við bjuggum við það að við vorum að taka Kárahnjúkana, stórauka þenslu í landinu vegna framkvæmda, voru skattar lækkaðir á fyrirtækjum og á einstaklingum, var lánshlutfall á íbúðarhúsnæði hækkað sem enn jók á peninga í umferð og þá var bindiskyldan inni í Seðlabankanum minnkuð og þá voru settar aukafjárveitingar til opinberra framkvæmda á sama tíma.

Þessi úrræði vantar okkur einmitt núna, þ.e. við hefðum átt að vera að lækka skatta, bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Við hefðum átt að vera að bæta í í sambandi við opinberar framkvæmdir en því miður, vegna þess ástands sem við erum komin í, höfum við ekki þessi úrræði og verðum þar af leiðandi að grípa til annarra atriða.

Fyrsti kaflinn í þessu plaggi er um heimilin. Þar er verið að tala um að rýmka heimildir til þess að heimilin geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána og þar er verið að tala um að fella þetta niður eða réttara sagt að minnka greiðslubyrðina til næstu þriggja ára, að mörgu leyti mjög athyglisverð og spennandi tillaga. Ríkisstjórnin hefur aftur á móti valið að fara varlegar í þetta vegna peningaástandsins, að fara ekki í almenna reglu sem þessa, en heils hugar skal tekið undir að miðað við þau úrræði sem við höfum kynnt nú þegar þarf að rýmka frekar til. Það er líka ástæða til að taka það fram að margir af bönkunum hafa nú þegar tekið sig til og unnið samkvæmt þessum hugmyndum til eins eða tveggja ára, farið í niðurfærslu — reyndar ekki niðurfærslu heldur frestað greiðslubyrðinni og samið við fólk. Það er gert af bönkunum og þeirra þjónustufulltrúum þar sem ekki þarf greiðsluaðlögun eða sérstök önnur úrræði.

Hér er tillaga um að sérfræðingahópur fjalli um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána og ég tek heils hugar undir það. Hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á a.m.k. að vera kunnugt um það að á sínum tíma þegar við vorum saman í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, þá var slíkur hópur settur af stað til þess að skoða hvernig bæði væri hægt að færa niður fasteignalánin en einnig að grípa inn í verðtrygginguna til þess að hindra að eignarýrnunin yrði með þeim hætti sem hér er. Út úr því kom greiðslujöfnunarvísitalan sem hefur ekki dugað, ekki að öllu leyti, en hefur þó hjálpað verulega þeim sem hafa áttað sig á því að nýta hana. En mér finnst full ástæða til að skoða þennan þátt og tek heils hugar undir þessa tillögu og held einmitt að sérfræðingahópur eigi að skoða þetta og niðurfærsluhugmyndir sem Framsóknarflokkurinn hefur komið með — líka þó að mér sé fullkunnugt um að þetta hafi verið skoðað og sé til skoðunar í Seðlabankanum og hafi verið skoðað víðar held ég að það sé einmitt vegna þeirrar umræðu sem oft hefur átt sér stað að nauðsynlegt sé að þetta sé gert samræmt af sérfræðingahópi.

Varðandi fyrirtækin þá nefndi ég að obbinn af þeim úrræðum sem hér eru eru í 100 daga áætluninni og ekkert nýtt í sjálfu sér í þeim. Þar af leiðandi ætti að vera auðvelt að fylgja því eftir að bankarnir vinni eftir fyrir fram ákveðnum reglum og öllu því sem þar hefur komið fram.

Ein af stóru tillögunum hér varðandi tekjuöflun er um það að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar fyrir fram en ekki eftir á. Þar vakna auðvitað ýmsar spurningar en full ástæða er til að skoða þá hugmynd, hvort þetta er skynsamlegt úrræði, hvort við erum að fresta vandanum og hvort það er þá skynsamlegt að gera það, hvort við værum að rýra lífeyrissjóðina um of miðað við það að hafa haft þá sem einu lánveitendur í íslensku efnahagskerfi á meðan við erum lokuð gagnvart útlöndum, allt þetta þarf að skoða. Bent hefur verið á að þetta geti hugsanlega aukið mismunun á milli opinberu sjóðanna og almennu sjóðanna, sem væri af hinu illa, af því að það er ríkisábyrgð á greiðslunum úr opinberu sjóðunum. Menn hafa líka bent á að þetta sé flókið í úrvinnslu vegna þess að menn þurfi að tvískipta þessu en það er ástæðulaust að vera að draga bara upp þessa drauga. Það væri náttúrlega gríðarlegur fengur að því að við gætum búið hér til 40 milljarða tekjustofn sem gæti hjálpað okkur inn í þetta erfiðleikatímabil. Það þarf líka að svara því: Er hugmyndin þá, þegar menn leggja slíkar tekjur á, að vera með persónuafslátt á þessum inngreiðslum eða ekki? Þetta eru svona ýmis atriði sem þarf að ræða, enda er tillagan um það að skoða hvort þetta sé fær leið.

Mér vinnst ekki tími til þess að fara yfir öll þau atriði sem eru í þessum tillögum, það er heilmikið í þeim. Það er mjög athyglisvert að þetta var lagt fram í þinginu í gær, komið hér til umræðu strax og verður væntanlega komið til nefndar strax eftir daginn í dag þannig að ekki er hægt að segja annað en að þingið sé að bregðast mjög hratt við. Vonandi fær tillagan málefnalega og vandaða umfjöllun í nefnd og þá frekari úrvinnslu í tengslum við þá þjóðarsáttar- eða (Forseti hringir.) stöðugleikasáttaumræðu sem er í gangi í samfélaginu í augnablikinu.