137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við deilum þeirri von að við getum náð saman að fylgja eftir þeim tillögum sem við heyrum úr 100 daga áætluninni, þeim tillögum sem hér eru lagðar fram og þeim tillögum sem Framsókn kom áður með. Það er alveg hárrétt sem komið hefur fram að bið og óvissa er alltaf erfið en ég vil líka vara við því sem mér hefur fundist vera mjög áberandi á þeim stutta tíma sem þetta þing hefur starfað að hv. þingmenn vilja sumir, og er ég þá ekki að tala um hv. þm. Illuga Gunnarsson, grugga vatnið og auka óvissuna með því að draga fram atriði sem svör eiga að liggja fyrir.

En varðandi það sem hann spyr mig um, hvort gefa eigi út skuldabréf og reyna þannig að ná samkomulagi við þá sem eiga þessi erlendu skuldabréf, held ég að það eigi allt að skoða. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef ekki skoðað þetta sérstaklega. Aftur á móti var mér kunnugt um að stór fyrirtæki eins og Landsvirkjun og fleiri hafa verið að skoða það að fá þessa aðila til að koma inn í fjárfestingar í íslensku atvinnulífi til langs tíma, m.a. með útboði.

Leitað hefur verið samninga við suma af þessum aðilum þannig að hér hafa ýmsar aðferðir verið reyndar. Það eru líka tillögur sem koma m.a. frá sjálfstæðismönnunum um að opna með einhverjum hætti leiðir fram hjá þessum skuldabréfum, að eiga eðlileg viðskipti varðandi fjárfestingar inn og út úr landinu. Allt er það vandkvæðum háð en ég tel að það sé tilraunarinnar virði að skoða allar þessar leiðir og að reyna að ná utan um þær vegna þess að það er ítrekað búið að benda á að þessi eign inni í landinu upp á hundruð milljarða sé alltaf að þvælast fyrir okkur vegna þróunar gjaldeyrisins. Ég held að við séum sammála um að skoða eigi þessar tillögur og væri forvitnilegt að fylgjast með vinnunni sem á sér stað í nefndinni. Ég hef ekki tök á því að sjá hvernig menn bregðast við tillögum sem þar hafa komið inn.