137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta svar hv. þingmanns og vona að menn finni sem fyrst tíma til að skoða vel þá tillögu sem við sjálfstæðismenn höfum verið að leggja fram. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki mikla trú á hugmyndinni um að þeir aðilar sem eiga krónubréf hafi áhuga á því að fjárfesta þau inn í einstök fyrirtæki. Það er ólíkt eðli þess rekstrar sem þessir einstaklingar standa í, þetta eru skuldabréfaútgefendur og þeir vilja ekki endilega fjárfesta í sérstökum fyrirtækjum með þeirri áhættu sem af því hlýst. En ég vil fagna þessu.

Ég vil líka nota tækifærið og spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson varðandi úrræði fyrir heimilin, hvort hann sé ekki sammála því — ég skildi hann þannig — að nauðsynlegt sé að einfalda og gera manneskjulegra það kerfi sem við höfum verið að byggja upp til að hjálpa þeim heimilum sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum. Það kemur fram í þeim gögnum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram að vanskil aukast mjög hratt í bankakerfinu. Eignastaðan er erfið og geta fólks til að standa undir þeim skuldbindingum sem liggja fyrir, jafnvel þótt eignastaðan sé jákvæð, minnkar í mörgum tilfellum hratt og er jafnvel orðin því ofviða. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að til séu úrræði til að við lendum ekki í fullkomnum voða, úrræði sem þó eru ekki of dýr, eru sanngjörn og hafa jafnræðissjónarmið að leiðarljósi. Að til séu úrræði sem hjálpa fólki til að komast í gegnum þetta. Hugmyndir okkar sjálfstæðismanna eru einmitt þannig vaxnar og miða að því að komast í gegnum erfiðasta hjallann næstu þrjú árin án þess þó að skera höfuðstólinn niður nema í sérstökum tilvikum. Greiðsluaðlögun að því sem fólk getur staðið undir tel ég að sé alveg gríðarlega mikilvæg. Það má ekki vera þannig kerfi að það sé allt að því niðurlægjandi fyrir fólk að fara í gegnum það ferli að geta fengið úrlausn mála sinna. (Forseti hringir.) Það verður að vera manneskjulegt kerfi.