137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum alveg sammála, ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson, um að þau úrræði sem við bjóðum upp á fyrir heimilin þurfi að vera einföld og skilvirk. Hv. þingmaður þekkir það að á sínum tíma var rætt um greiðsluaðlögunina með tvennum hætti: Tillaga var um almennt úrræði sem færi í gegnum félagsmálapakkann þar sem menn kæmu í gegnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna varðandi skilgreiningar á því hverjir ættu rétt á þeim úrræðum. Niðurstaðan í því samstarfi þegar við unnum að þessu haustið 2007 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var að fara dómstólaleiðina inn í kerfið af öryggisástæðum. Mér er engin launung á því að ég hafði bundið miklar vonir við að þetta kerfi kæmist fljótt í gang og það mundi með nokkrum fyrstu einstaklingunum sem færu í gegnum það kerfi skapa reglur sem bankarnir gætu nýtt sér og farið eftir almennum reglum án þess að það færi í gegnum dómstólakerfið.

Eitt af því sem við höfum verið að glíma við í sambandi við bankana er að við gerum gríðarlega háar kröfur um gegnsæi, heiðarleika og allt þetta sem enginn á að víkja frá en það hefur kallað fram ákvörðunarfælni í mörgum tilfellum. Það hefur þýtt að menn hafa ekki þorað að höndla, hvorki varðandi fyrirtæki né einstaklinga og það er hluti af vandamálinu.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því en ég held að við eigum að reyna einmitt að nýta okkur þann „praxis“, ef má orða það þannig, sem kemur út úr greiðsluaðlöguninni í gegnum dómstólaleiðina og það þunga kerfi sem talað er um og færa það sem almennt úrræði inn í bankana vegna þess að það er hægt þegar menn hafa fundið út hvernig það er framkvæmanlegt. Við þurfum almenn úrræði ef til kemur að einhverjar niðurfellingar þurfi umfram það sem er í úrræðunum í greiðsluaðlöguninni. Þá erum við ekki búin að missa af því eftir einhvern ákveðinn tíma að skoða það vegna þess að við verðum að sjá áður en við förum að taka slíkar ákvarðanir (Forseti hringir.) hvernig eignaþróunin í landinu verður, hver hagvöxturinn verður (Forseti hringir.) og hver umsvifin í samfélaginu verða.