137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessara síðustu orða hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um að við séum ekki búin að missa af því að grípa til einhverra annarra aðgerða en ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt, kann það að vera rétt. En ég held að mörg heimili séu hreinlega að missa af því.

Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og farið í virka ekki og með leyfi forseta ætla ég aftur að vitna í grein eða frétt á Pressan.is — ég hef grun um að hv. þingmaður hafi ekki heyrt það áðan — þar sem vitnað er í tölvupóst sem forstjóri Kaupþings sendi innan húss til starfsmanna sinna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa ítrekað sagt að ekki standi til að lækka skuldir heimilanna með flötum niðurskurði. Það blasir hins vegar við að þau úrræði sem þegar hafa verið kynnt munu ekki duga eða eru of þung í vöfum til að gagnast nægilega vel. Því hefur viðskiptabankasvið verið að leita nýrra leiða.“

Þarna er maður sem vinnur með þetta kerfi á hverjum einasta degi eða starfsmenn hans og hann segir okkur að það virki ekki. Það er ekki hægt að bíða, það verður að grípa strax til aðgerða og það hafa komið fram hugmyndir um slíkar aðgerðir. Það er hægt að hrósa þeim sem stýra þinginu fyrir að taka mál mjög hratt fyrir eins og þessa þingsályktunartillögu frá Sjálfstæðisflokknum en það er að mínu viti alveg sjálfsagt að svo stórt mál sé tekið mjög hratt fyrir. Framsóknarflokkurinn, eins og kom fram í ræðu minni fyrr í dag, lagði fram fyrir tæpum 90 dögum 18 tillögur í efnahagsmálum. Það er reyndar lengra síðan þær voru lagðar fram en fyrir tæpum 90 dögum fóru þær til efnahags- og viðskiptanefndar og eru þar enn. Þetta eru tillögur til lausnar á efnahagsvanda þjóðarinnar og þær eru 90 dögum, tæpum þremur mánuðum síðar, í efnahags- og skattanefnd (Forseti hringir.) og það er ekkert ferlega hröð afgreiðsla, finnst mér.