137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði: Aðgerðirnar virka ekki. Það er einmitt þetta orðalag sem ég varaði við áðan. Hvað þýðir það? Það virkar engin þeirra. Það er sem sagt ekki búið að gera neitt. Þetta hefur staðið upp úr hverjum manninum á fætur öðrum í ræðustóli Alþingis og að mínu mati er þetta hluti af vandamálinu. Við tölum lausnirnar alltaf niður. Þar getum við svo orðið sammála, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og ég, að aðgerðirnar eru ekki nægar en það er eðlismunur á þessu tvennu. Það er einmitt það sem við höfum verið að glíma við, að skilgreina hvað þarf til til að við náum utan um vandann. Það er einmitt það sem við höfum verið að kalla eftir.

Mér er fullkunnugt um það sem bankarnir hafa verið að glíma við innan húss í allri sinni vinnu og tillögum. Ég hef meira að segja séð hjá þeim glærusýningu þar sem þeir velta fyrir sér hvernig þeir ættu að koma til móts við vandann, það hefur verið mjög skapandi vinna. Auðvitað á að nýta sér það og reyna að koma því í framkvæmd. Við erum að slást við fjárlagavanda næstu 4–5 ár upp á 170 milljarða og höfum ekki efni á að bæta ýkjamiklu í það umfram það sem þegar hefur verið sett á okkur af því ástandi sem ríkt hefur í samfélaginu á undanförnum árum. Þess vegna eru menn að reyna að fara varlega. Tökum þetta ekki allt niður, segjum heldur: Það er búið að gera helling, það er mikið sem virkar, en við skulum alveg vera sammála um að það er ekki nóg og þess vegna eigum við að leita að því hvað þarf að gera frekar, til hvaða úrræða þurfum við að grípa. Hér hafa komið fram tillögur frá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn hefur lagt fram tillögur. Það sem verið er að kvarta yfir er ekki spurningin um að afgreiða þessar tillögur með jái eða neii. Það er spurningin um að leggja saman sáttargjörðina í þeirri fjárlagavinnu sem verið er að inna af hendi, nýta það besta úr þessum tillögum, afsala sér þá höfundarréttinum og reyna að koma með (Forseti hringir.) einhverjar skynsamlegar tillögur sem allir geta sameinast um. Það er verkefni okkar næstu daga.