137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að höfundarrétturinn skiptir engu máli og það er alveg sama, persónulega er mér nákvæmlega sama hverjir leggja fram góðar tillögur ef þær eru teknar, skoðaðar, unnar, settar fram og — nú þarf ég að vanda mig, ég má ekki segja virka — en alla vega duga til.

Ég vitnaði í orð forstjóra Kaupþings og ég vil bara nota tækifærið og hrósa Kaupþingi um leið fyrir að ætla að grípa til aðgerða innan þess fyrirtækis til að hjálpa þeim sem eru í vanda staddir.

Ég ætla að leyfa mér að vitna aftur í þennan tölvupóst á öðrum stað, með leyfi forseta:

„Ljóst er að æ fleiri heimili og fyrirtæki eru að sökkva dýpra í skuldavandamál. Til að taka á vanda þeirra þarf að þróa mismunandi lausnir fyrir mismunandi atvinnugreinar og finna leiðir til að útibúin geti sinnt þessu verkefni o.s.frv.“

Það er alveg ljóst, hv. þingmaður, hvaða orð sem við notum um það og ég skal nota orðið „duga“, að þær aðferðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til og eru komnar í framkvæmd duga ekki. Þær duga ekki heimilunum, þær duga ekki fyrirtækjunum og því þarf róttækari aðgerðir eða að koma í framkvæmd hlutum sem duga. Þetta dugar ekki sem komið hefur fram nú þegar.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, það eru u.þ.b. 90 dagar síðan tillögur Framsóknarflokksins fóru til efnahags- og skattanefndar. Það getur vel verið að þær séu svo ítarlegar og flóknar að það hafi tekið svona langan tíma að fara í gegnum þær en í þeim eru þó atriði sem eru einnig í 100 daga yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna finnst mér að þegar núverandi ríkisstjórn er búin að vera við völd í 120 eða 130 daga eða hvað það nú er, hljóti að vera kominn tími á að eitthvað af þessu líti dagsins ljós og dugi til að laga ástandið hér.