137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræður hér tillögu okkar sjálfstæðismanna um aðgerðir í efnahagsmálum. Það sem mér hefur tekist að fylgjast með umræðunni í dag þá hefur hún verið jákvæð og uppbyggileg og ánægjulegt að heyra hvernig aðrir flokkar taka í þessa tillögu okkar sjálfstæðismanna. Ég ætla ekki að endurtaka allt sem hér hefur komið fram, það sem ég ætlaði að gera var að fara stuttlega yfir helstu atriði en þó aðallega að dvelja við tvö atriði og fara dýpra í þau. Það eru annars vegar hugmyndir okkar um kerfisbreytingu varðandi lífeyrisgreiðslurnar og hins vegar um atvinnuskapandi aðgerðir og taka þá sérstaklega fyrir háskólasjúkrahúsið.

Almennt má segja, virðulegi forseti, að hér sé um það að ræða að við leggjum fram hluti sem menn gætu sagt að í mjög mörgum tilfellum séu allir sammála um og það er mikið til í því. Þó eru flestar þær tillögur sem þarna eru inni tillögur sem ekki hefur verið fallist á fram til þessa og ríkisstjórnin hefur farið aðrar leiðir. Við vorum einmitt að fylgjast með orðaskiptum á milli þingmanna um hvaða leiðir væru farnar varðandi heimilin, en ég styrkist alltaf í þeirri skoðun minni að það sé afskaplega mikilvægt að fara í almennar aðgerðir fyrir heimilin í landinu og ég verð sannfærðari um það með hverjum deginum að þeim úrræðum sem nú standa til boða fylgi of mikil fyrirhöfn, ef þannig má að orði komast, það sé of mikil þrautaganga fyrir fólk að komast í þau. Það er gríðarlega mikil breyting á stöðu fólks almennt og það eitt og sér segir að við eigum ekki að fara þá leið að fólk þurfi að fara mjög langan veg til að fá úrlausn sinna mála. Ég hitti mjög margt fólk sem ekki hefur verið í vanskilum en miðað við þær aðstæður sem eru núna segir það að til að geta fengið einhverja úrlausn til að geta haldið áfram þurfi það helst að fara á vanskilaskrá. Það er ástand sem við viljum ekki sjá. Við sjáum bara að aðstæður hafa breyst mjög mikið á skömmum tíma á Íslandi.

Síðan eru auðvitað praktískt mál sem við höfum áhyggjur af sem ganga allt of hægt. Við sjáum það núna, virðulegi forseti, að ef áætlanir ganga upp fáum við áætlun í ríkisfjármálum um mitt ár og það eru ríkisfjárlög fyrir árið 2009. Það að menn hafi frestað þessu — vegna þess að vandinn fer ekki — þýðir að vandinn verður hálfu meiri. Það þýðir að þjónusta mun skerðast, skattar munu hækka og fólk mun missa vinnuna vegna þess að menn tóku ekki strax á vandanum. Það þýðir lítið að tala um það núna en þetta er staðan sem er uppi. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að fólk sem er í forustu í ríkisstjórninni — og ég fullyrði að við sjálfstæðismenn höfum ekki verið með harða stjórnarandstöðu og í rauninni ekki aðrir stjórnarandstöðuflokkar, við erum að koma fram með þessa tillögu og höfum verið að vinna þá vinnu til að reyna að hjálpa ríkisstjórninni við þessar erfiðu aðstæður og við erum boðin og búin til að gera það. Það vantar hins vegar skýra verkstjórn, það vantar pólitíska leiðsögn fyrir þá aðila sem eru að vinna verkin, hvort sem það er endurreisn bankanna eða það sem snýr að fyrirtækjunum og almenningi.

Nokkur umræða hefur orðið um hugmynd okkar um kerfisbreytingu varðandi lífeyrismálin. Það skal tekið fram að sá sem hér talar er afskaplega mikill stuðningsmaður þess lífeyrissjóðakerfis sem við erum með í dag. Ég veit að aðrar þjóðir öfunda okkur vegna þess að þetta kerfi er þess eðlis að við erum að safna í sjóði fyrir komandi kynslóðir og munum ekki lenda í sömu vandræðum og þær þjóðir sem eru með gegnumstreymiskerfi og sem vegna breyttrar aldurssamsetningar horfa nú fram á gríðarlegan vanda í nútíð og framtíð.

Sú leið sem við veltum hér upp breytir ekki hugsuninni eða kerfinu í grundvallaratriðum. Nú er það svo með ákveðinni einföldun að lífeyrissjóðakerfið íslenska er skyldukerfi, allir verða að greiða í það og fá greitt út í fyrsta lagi við 60 ára aldur. Það má segja að á móti komi frá ríkisvaldinu að menn séu með algjör skattfríðindi, það er enginn fjármagnstekjuskattur greiddur af lífeyrissjóðsinneign eða lífeyrissjóðsgreiðslu. Það gerir það að verkum að lífeyrissjóðssparnaður er langhagstæðasta sparnaðarformið. Áður var enginn eignarskattur greiddur af öðrum sparnaðarformum en eftir að hann var lagður niður er hvort sem heldur ekkert um það að ræða.

Núna er það þannig að þegar við greiðum inn í lífeyrissjóð greiðum við engan skatt. Hins vegar þegar við fáum útgreiðsluna greiðum við tekjuskatt eins og af öðrum greiðslum. Hugmynd okkar gengur út á að snúa þessu við, að þegar við greiðum inn í sjóðinn greiðum við skattinn en þegar við fáum greitt úr honum greiðum við engan skatt. Við erum að tala um sömu skattalegu meðferð, þetta er bara spurning um á hvaða tímapunkti skatturinn er tekinn.

Það sem bent hefur verið á þann stutta tíma frá því að tillögurnar voru kynntar, þá er sumt misskilningur varðandi gagnrýni á þessa hugmynd, annað er eitthvað sem þarf að skoða sem úrlausnarefni, t.d. eins og það að setja þyrfti þá sjóðasöfnun sem er í lífeyrissjóðunum núna í deild sem yrði lokað og að öllu jöfnu mundi það þýða, miðað við það umhverfi sem er núna, ákveðna réttindaskerðingu en það er hins vegar úrvinnslumál. Hægt er að ganga þannig fram að til þess þyrfti ekki að koma.

Það felst ákveðið flækjustig í persónuafslættinum vegna þess að tekjuskattskerfið er í rauninni tvískipt og það er stighækkandi. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef bestar þyrfti að gera þetta með þeim hætti að enginn skattur væri á fyrstu 200 þús. kr. af lífeyrissjóðsgreiðslu hjá einstaklingi. Þetta er úrvinnslumál sem þarf eðli málsins samkvæmt að fara í og leggjast vel yfir en það er þess virði, því að ef þetta gengur upp, sem við teljum að sé ekki spurning, mundi það auðvelda okkur mjög að takast á við ríkisfjármálin og takast á við þá skuldsetningu sem er núna. Það væri auðvitað æskilegt að þessir fjármunir væru nýttir til þess að greiða niður skuldir og að við mundum ekki heykjast á því nauðsynlega verkefni að takast á við ríkisfjármálin, en það er vandi sem menn hafa verið að ýta á undan sér og ekki tekið á og það er dýrt.

Við höfum sömuleiðis velt hér ýmsu fyrir okkur varðandi atvinnusköpun. Eitt af því sem menn hafa lagt upp með og telja skynsamlegt að gera við aðstæður sem þessar, þ.e. í efnahagslægð eða kreppu — og þannig höfum við Íslendingar unnið slíka hluti, í efnahagslægð og kreppu byggðum við gamla Landspítalann, Háskóla Íslands, Austurbæjarskóla — er að byggja húsnæði yfir starfsemi sem væri góð langtímafjárfesting.

Allra best væri, virðulegi forseti, ef hægt væri að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir sem munu nýtast sem rekstrarsparnaður. Við erum með eitt slíkt verkefni og það er Landspítalinn – háskólasjúkrahús. Ég þekki það mál vel og ég ætla ekkert að fara í grafgötur með að það mál er mér nokkuð hugleikið. Ég setti það í ákveðinn farveg eftir að nýr forstjóri Landspítalans tók við og fól henni að endurskoða þessi mál þar sem hún hafði reynslu af slíku frá Noregi, hafði komið að slíkum málum þar. Hún fékk til sín norska sérfræðinga sem fóru yfir málið með það að markmiði að skoða forsendur og kanna hvort hægt væri að vinna það bæði með hagkvæmari hætti og sömuleiðis að áfangaskipta því þannig að rekstrarsparnaður kæmi fyrr fram. Niðurstaða sérfræðinganna var sú að það væri hægt og ná mætti framkvæmdakostnaðinum niður um 40 milljarða, auðvitað með því að sleppa ákveðnum hlutum eins og bílastæðahúsum og öðru slíku. En eftir stendur að menn ná því markmiði að ná fram rekstrarsparnaði hjá þessari stofnun um hvorki meira né minna en 6% á ári sem að núvirði eru í kringum 3 miljarðar. Það gerði það að verkum miðað við þá hluti sem menn eru að skoða og ég setti í gang á sínum tíma að lífeyrissjóðirnir kæmu að þessu, gætum við, ef þeir mundu fjármagna þetta, nýtt þá fjármuni sem spöruðust til að greiða niður bygginguna sem eru auðvitað kjöraðstæður.

Þetta er eitt af því sem við erum með hér inni vegna þess að það er mikilvægt að skoða þetta ásamt öðru sem þarna er. Það er með vilja, virðulegi forseti, sem ég fer ekki yfir allt þar sem ég veit að menn eru búnir að fara í það hér núna en tek þessa hluti sérstaklega út. Ég legg áherslu á að við vinnum saman á þinginu, að við tölum ekki bara um þessa hluti heldur komum þeim í framkvæmd, (Forseti hringir.) því að vandinn felst í því að það er ekki verið að gera slíkt.