137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, bara rétt varðandi tímamörkin þá held ég að ekki sé eftir neinu að bíða hvað þetta snertir. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að sinni áætlun sem fyrirhugað er að birtist í skýrsluformi hér á þinginu. Í því augnamiði hafa verið fundir með aðilum vinnumarkaðarins og fleirum og m.a. stjórnarandstöðunni og ég tel að þetta eigi að vera fóður inn í þá vinnu. Þær hugmyndir sem hér eru reiddar fram eiga að vera fóður inn í þá vinnu og birtast í skýrslunni sem fyrirhugað er að leggja fram. Í því sambandi hefur verið talað um 20. júní, lok næstu viku eða byrjun þarnæstu viku — ég hygg að talað hafi verið um það af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í sjálfu sér er því ekki eftir neinu að bíða.

Ég vonast til þess að þau áform sem stjórnin hefur haft uppi um það gangi eftir og að við getum áður en langt um líður tekið þessi mál til áframhaldandi umræðu.