137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara stutt um það að hlutirnir gangi hægt og ekki sé unnið nógu hratt og örugglega eða nógu mikið. Ég fullvissa hv. þingmann um að unnið er baki brotnu að þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar og þingmanna stjórnarflokkanna sem hafa tekið þátt í þessari vinnu. Ég er sannfærður um að ef þingmaðurinn spyrði t.d. fjölskyldur okkar hvað við værum mikið heima við fengi hann upplýsingar um það. Ég hef haft tækifæri til þess að starfa í ríkisfjármálum sem fulltrúi í fjárlaganefnd af hálfu stjórnarflokks og ég veit að við höfum verið í því meira og minna alveg frá því snemma á morgnana og fram yfir miðnætti nánast hvern einasta dag undanfarið og allar helgar líka. Þetta er mikil vinna, eins og hv. þingmaður veit sem hefur verið þingmaður í stjórn, og þarf að ráðgast við mjög marga aðila. Starfsmenn í ráðuneytum og stofnunum hafa líka lagt í þetta mikla vinnu með okkur sem og aðilar vinnumarkaðarins og það hefur verið mikið samráð. Og nú koma stjórnarandstöðuflokkarnir að þessu samstarfi.

Auðvitað hefði ég gjarnan viljað sjá það sjálfur að hlutirnir gengju hraðar fyrir sig. Ég hefði gjarnan, eins og hv. þingmaður, viljað sjá bandorminn hér ekki síðar en í þessari viku en hann dregst eitthvað fram yfir helgi úr því sem komið er. En það leggja sig allir fram, allir gera sitt ýtrasta til þess að hraða þessari brýnu vinnu eins og hægt er. Ég er þeirrar skoðunar og er örugglega sammála hv. þingmanni um að það er ekkert þingmál brýnna núna um þessar mundir en einmitt þau sem lúta að aðsteðjandi vanda í efnahags- og atvinnulífi okkar Íslendinga og þau eiga að sjálfsögðu að hafa allan forgang í stjórnsýslunni og í störfum Alþingis.