137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga sem Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn flokksins hafa lagt fram á þinginu er viðamikil og efnismikil og hefur verið til umfjöllunar í dag. Ber að þakka þau hlýju orð sem fallið hafa í garð þessarar tillögu af hálfu flestallra sem tekið hafa til máls.

Með þingsályktunartillögunni er gerð tilraun til þess að varpa heildarsýn á það stóra verkefni sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir sem er það að reisa við efnahag landsins. Það er stórt verkefni, það er flókið verkefni og það er erfitt en það er bara ekkert annað að gera en að bretta upp ermarnar og halda af stað, það er það sem þarf að gera.

Öll sú ólga sem verið hefur hér á undanförnum mánuðum vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur í kjölfar efnahagslægðarinnar er vissulega erfið en með því að leggja fram raunhæfar, tímasettar aðgerðir er gerð tilraun til þess að leggja fram heildarmynd þannig að hægt sé að sjá hvert stefnt er. Það er í rauninni það sem vantað hefur inn í umræðuna, það er framtíðarsýn og stefna. Það er það sem þarf að gera og það sem gert er með þessari þingsályktunartillögu.

Stærstu verkefnin til þess að við náum árangri varðandi stjórnun efnahagsmála eru að sjálfsögðu þau að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það hefur gengið afskaplega hægt að mínu mati og því brýnt að einhenda sér í að taka til aðgerða og bretta upp ermar á því sviði.

Endurreisn bankanna hefur gengið hægt fyrir sig að sama skapi. Vissulega er verkefnið flókið en þau svör fengust hér í síðustu viku að hæstv. fjármálaráðherra muni leggja fram einhverjar nýjar upplýsingar varðandi stöðu mála þar í lok mánaðarins. Það er vissulega ánægjulegt en sú lausn er mun seinna á ferðinni en búast mátti við.

Þegar þessi tvö stóru verkefni, þ.e. að ná tökum á ríkisfjármálunum og að endurreisa bankana, hafa komist á koppinn og náðst hefur árangur þar er fyrst hægt að ná árangri varðandi vaxtalækkun. Það mikilvægasta í þessum tillögum er að mínu mati að þær eru tímasettar, að við gefum okkur stuttan tíma til þess að hrinda þeim í framkvæmd. Það er það sem þarf að gera og það sem við Íslendingar bíðum eftir.

Atvinnumálin eru þau mál sem mikið hafa verið til umræðu í dag og á þinginu á undanförnum missirum. Það er að sjálfsögðu vegna þess að ekkert er mikilvægara fyrir fólk sem gengur um landið okkar atvinnulaust en að sjá að það sé einhver von fram undan, að það sé einhverja vinnu að fá. Í dag eru um 16 þúsund manns atvinnulausir, eftir því sem hæstv. iðnaðarráðherra upplýsti hér áðan, þar af eru 3 þúsund í hlutastarfi, en það breytir ekki því að verkefnið er stórt og þurfa margir á aðstoð að halda.

Til þess að við náum árangri í að útvega fólki vinnu verðum við nýta auðlindir landsins, það er algjörlega kristaltært. Við verðum að nýta þá orku sem hér býr og við verðum að gera það með skynsamlegum hætti. Við getum ekki beðið endalaust eftir því að gerðar séu áætlanir eða lögð drög að einhverjum stefnumótunum heldur verðum við að einbeita okkur að því að grípa þau tækifæri sem til staðar eru vegna þess að þau eru mýmörg. Það eru fjölmargir erlendir fjárfestar sem hafa áhuga á að koma til landsins og fjármagna verkefni hér sem tengjast flestöll orkufrekum iðnaði. Til þess að svo megi verða verður að sjálfsögðu að vera einhver orka í boði og það er það sem málið snýst um, að skapa meiri gjaldeyristekjur, að skapa möguleika til að hér verði til ný atvinnutækifæri og að sjálfsögðu að koma bönkunum á fót þannig að hægt sé að styðja við þau fyrirtæki og þá starfsemi sem fyrir er í landinu.

Stærsta hlutverk okkar stjórnmálamanna er að sjálfsögðu að vekja hjá fólki von um að hér sé framtíð. Nógu margir hafa að undanförnu talað kjarkinn úr fólki en við á hinu háa Alþingi skulum ekki standa fyrir því heldur leggja fram raunhæfar tillögur og stefna að því marki að endurreisa efnahaginn. Við höfum marga góða kosti, þjóðin er ung og það er einn okkar helsti styrkleiki. Þjóðin er vel menntuð, við erum ein menntaðasta þjóð í Evrópu, það er líka einn af okkar helstu styrkleikum. Hér eru sterkar stoðir í atvinnuvegunum, sjávarútvegurinn er okkar helsta útflutningsgrein og við eigum að forðast það eins og hægt er að vega að grunni hans eins og gert hefur verið nú á undanförnum vikum með tali um fyrningarleiðina svokölluðu. Hann er sterkasta stoðin okkar og við eigum ekki að rugga bátnum, þetta er ekki tíminn til þess.

Síðan er stóra verkefnið það að vinna saman að því að koma efnahagnum á réttan kjöl og fela tillögur okkar í þessari þingsályktunartillögu, sem er vel unnin og vel ígrunduð, í sér raunhæfa leið til þess að reisa við efnahag landsins.