137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

20. mál
[16:54]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega mikilvægt í því efnahagsumróti sem nú ríkir á Íslandi að menn missi ekki sjónar af öðrum mikilvægum réttlætismálefnum sem veika rödd hafa. Því fagna ég þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Eins og þegar hefur komið fram var frumvarp sama efnis lagt fram á 135. löggjafarþingi og var þá flutt af hv. fyrrverandi þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur en hlaut ekki afgreiðslu. Það frumvarp sem við ræðum nú var flutt á 136. löggjafarþingi en komst þá því miður ekki til 2. umr.

Þær breytingar sem við ræðum nú leiða til þess að bannað verði að bjóða upp á nektarsýningar í atvinnuskyni á veitingastöðum eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Sérfræðingar í kynferðisofbeldi hafa bent á að mansal, vændi og eiturlyfjaneysla þrífist í mörgum tilfellum í skjóli nektarstaða og með þessari breytingu náum við að má þann smánarblett sem sala og sýningar á nekt manna eru á íslensku samfélagi og efla almenna siðgæðisvitund.