137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

Icesave-samningurinn.

[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi frystinguna held ég reyndar að það mál hafi verið klárt fyrir helgi og fyrirheit breskra stjórnvalda var að í síðasta lagi í dag, 15. júní, yrði frystingunni aflétt. Það hefur sem sagt gengið eftir og er það að sjálfsögðu mikilvægur áfangi í þeim efnum að fá forræði yfir eignunum aftur, fá aðgang að þeim fjármunum sem þarna liggja bundnir vaxtalausir.

Um málið að öðru leyti er það að segja að ríkisstjórnin hafði fullt samningsumboð og fyrirmæli frá Alþingi um að leiða það til lykta með samningum. Fjármálaráðherra var falið af ríkisstjórn í febrúar að hafa forustu í því verkefni og skipa samninganefnd hvað hann og gerði og sú samninganefnd leiddi málið til lykta á grundvelli þess umboðs sem fyrir lá frá Alþingi og ríkisstjórn. Í framhaldinu verður svo útbúið frumvarp sem ég mun leggja fram í ríkisstjórn og væntanlega fá heimild til að leggja fram sem stjórnarfrumvarp í trausti þess að það njóti tilskilins meiri hluta á Alþingi og eftir það verði málið í höndum Alþingis.