137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

Icesave-samningurinn.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í grunninn eru bara tvær spurningar sem ég inni hæstv. fjármálaráðherra eftir. Sú fyrri er þessi: Gekk ríkisstjórnin frá þessum samningi án þess að tryggja að öruggur meiri hluti væri á þinginu þegar hæstv. forsætisráðherra vísar til þess að það kunni að vera stuðningur hjá stjórnarandstöðunni? Þá man ég ekki eftir því. Ég minnist þess ekki að áður en gengið var frá samningnum hafi verið leitað til okkar í Sjálfstæðisflokknum varðandi mögulegan stuðning. Hefði það ekki verið eðlilegt? Það er sem sagt fullkomin óvissa um hvort það er meiri hluti fyrir þessu á þinginu og samráðið við stjórnarandstöðuna hefur alla vega ekki verið neitt.

Hin spurningin er þessi: Hvað ætla menn að gera í samskiptum sínum við Bretland ef á endanum kemur í ljós að þingið styður ekki samninginn sem gerður var? Ég ætla að leyfa mér að andmæla því (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin hafi fengið opið umboð til að klára þessa samninga. Auðvitað áttu menn ekki að ganga frá samningum ef þeim bauð í grun að ekki væri meiri hluti fyrir þeim á þinginu.