137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

Icesave-samningurinn.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er athyglisvert að formaður Sjálfstæðisflokksins er aðallega í umræðum um formsatriði eða form í þessu máli en ekki efni þessa stóra máls sjálfs (Gripið fram í.) sem væntanlega skiptir öllu máli, hvort okkur Íslendingum tekst að leiða þetta mál til lykta, þetta afdrifaríka og stóra mál, á það farsælan hátt að það geti orðið hluti af því að við komum okkur í gegnum erfiðleikana og getum unnið úr öðrum málum sem þessu máli eru tengd.

Ferli málsins er ósköp einfalt: Á grundvelli þess samningsumboðs sem ég hef gert grein fyrir var málið leitt til lykta nákvæmlega eins og ætlunin var af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar. Stjórnarfrumvarp, sem ég sem ráðherra mun leggja fyrir ríkisstjórn Íslands, er í smíðum. Þaðan fer það væntanlega til þingflokka stjórnarliðsins og síðan á borð alþingismanna og eftir það verður málið í höndum Alþingis eins og venja er. Ég geri ráð fyrir því að sú spurning sem hv. þingmaður bar upp, (Forseti hringir.) þ.e. hvaða afleiðingar það hefur og hvað gerist ef málið verður fellt, verði skoðuð í þinginu, ég ætla rétt að vona það.