137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

áætlun um gjaldeyristekjur vegna Icesave.

[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann eða ráðuneyti hans hafi gert áætlun um hvernig Íslendingar geti skapað nægar gjaldeyristekjur næstu 15 árin til að standa undir því Icesave-samkomulagi sem hann talar fyrir því að nú er ljóst að aldrei í gegnum tíðina hefur á Íslandi skapast nægur afgangsgjaldeyrir til að komast nálægt því að standa undir því sem lagt er upp með, jafnvel miðað við bjartsýnustu áætlanir ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þó að áætlunin um 27% endurheimtur standist hefur aldrei verið nægur gjaldeyrir til á Íslandi til að standa undir því sem þá þurfti að borga og það er einmitt sú gildra sem svo mörg þriðja heims ríki lentu í, sérstaklega upp úr 1970 í olíukreppunni þegar þau tóku lán í erlendri mynt sem síðan er búið að festa þessi lönd í fátæktargildru. Það var reyndar, eins og í samningnum sem hæstv. ráðherra hefur talað um, hægt að semja aftur þegar kom í ljós að menn stóðu ekki undir þessu. En skuldir voru ekki felldar niður. Skuldir af ríki eru ekki felldar niður. Það er bara lengt í lánunum, lengt í hengingarólinni, eins og ríkisstjórnin þekkir svo vel. Hefur ráðherrann gert ráðstafanir, kannað hvernig við getum mögulega staðið undir þessu? Það er allt annað fyrir ríkið að skuldsetja sig í erlendri mynt en sinni eigin mynt. Það er talað um hagvöxt í þessu sambandi og því er spáð að hér verði svo og svo mikill hagvöxtur en það hefur ekkert með þetta að gera.

Í Austur-Þýskalandi á sínum tíma höfðu menn alltaf nægan hagvöxt en það var skortur á erlendri mynt sem felldi það ríki að lokum og raunar var staðan þannig 1989 að þjóðarframleiðslan þar var um 250 milljarðar í vestur-þýskum mörkum [Hlátur í þingsal.] en þeir skulduðu … (Gripið fram í.) — Þetta þykir Samfylkingunni fyndið, að setja Ísland í hóp með þriðja heims ríkjum og austantjaldsríkjum. Það er nefnilega svo að staða Íslands verður að sjö árum liðnum, jafnvel þótt áform ríkisstjórnarinnar gangi eftir, verri en staða Austur-Þýskalands hvað varðar möguleika á að skapa gjaldeyri. Hvernig ætlið þið að leysa það?