137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

áætlun um gjaldeyristekjur vegna Icesave.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að það verður þröngt um gjaldeyristekjur sem og aðra verðmætasköpun í þjóðarbúskap okkar ef heimsenda- og svartnættisspár hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (Gripið fram í.) ganga eftir. Það er ljóst. Hitt er alveg rétt að skuldastýring, greiðslubyrði og mat á því hvernig íslenskur þjóðarbúskapur ræður við þau áföll sem hann varð fyrir, bæði af innlendum og erlendum toga, (Gripið fram í.) verður eitt mikilvægasta verkefni okkar á komandi missirum. Að því er að sjálfsögðu unnið, að fá mynd af heildarstöðunni og reyna að sjá til þess að greiðslubyrðin í formi gjalddaga og vaxtabyrði dreifist þannig að það geti orðið viðráðanlegt fyrir þjóðarbúskapinn og við komum okkur í gegnum erfiðleikana. (Gripið fram í.) Þetta sérstaka verkefni er nokkuð nýtt fyrir okkur þó að það hafi auðvitað alltaf skipt máli að menn kunni fótum sínum forráð og noti bestu aðferðafræði í þessum efnum. En það er alveg augljóst mál að á þessu sviði verðum við að styrkja okkur, afla okkur sérfræðilegrar ráðgjafar og þekkingar og að því er verið að vinna m.a. með mögulegu samkomulagi við hollensk stjórnvöld þar um. Þau hafa boðið fram aðstoð sína í þessum efnum sem og margir fleiri erlendir sérfræðingar.

Niðurstaðan í Icesave-samningunum er að þessu leyti til mjög mikilvæg vegna þess að hún hlífir íslenska ríkinu við greiðslu af þessum sökum í heil sjö ár (Gripið fram í.) á þeim tíma sem við munum ganga í gegnum mestu erfiðleikana og verðum vonandi komin það vel á fæturna að við verðum í allt annarri og vænlegri stöðu til að ráða við eftirstöðvarnar, hverjar sem þær verða. Að sjálfsögðu er unnið að því og menn eru að reyna að glöggva sig á heildarmyndinni að þessu leyti. Það er að sjálfsögðu mat manna að þetta verði viðráðanlegt enda stæðum við væntanlega ekki í þessu öðruvísi. Ég get lofað því að um þetta verður ítarlega fjallað í skýrslu (Forseti hringir.) um heildaráætlanir í efnahagsmálum fyrir árin 2009–2013 sem vonandi verður dreift á borð þingmanna innan ekki margra sólarhringa.