137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

niðurfelling persónulegra ábyrgða starfsmanna Kaupþings.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Einhverra hluta vegna þarf ég ekki að tala jafnhátt og hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, fyrir framan mig eru hljóðnemar sem ég held að nemi mitt mál. Alvara málsins er hins vegar nokkur.

Mig langar að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar. Í fréttum í gær og dag segir að lagaheimild virðist skorta til að snúa við ákvörðun fyrrverandi stjórnar Kaupþings um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans fyrir lánum sem þeir fengu til hlutabréfakaupa. Verður hér látið staðar numið af hálfu stjórnvalda eða hyggst ráðherra beita sér í þessu máli og ef svo er hvernig?