137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

vaxtalækkanir og peningastefnunefnd.

[15:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra. Í síðustu viku sagði hæstv. forsætisráðherra á sama vettvangi að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefði í raun haft allar forsendur og upplýsingar um ríkisfjármálin til að lækka vexti meira en gert var og hugsanlega — hún gaf það í skyn — mögulega væri tækifæri fljótlega til að lækka vexti enn frekar og það var jafnvel látið í veðri vaka að hægt væri að skjóta á aukavaxtaákvörðunardegi þó að ég taki skýrt fram að hún lofaði engu slíku.

Ummæli hæstv. forsætisráðherra vekja þó að sjálfsögðu væntingar í atvinnulífinu enda þyrstir bæði atvinnulífið og heimilin í landinu eftir frekari vaxtalækkunum. Í fjölmiðlum um helgina heyrðum við hins vegar af því að þær áætlanir ríkisstjórnarinnar frestist, þ.e. það frestist að leggja fram slíkar áætlanir, að bandormurinn sem boðað var að kæmi inn í þingið í síðustu viku og nú í þessari viku gæti jafnvel frestast fram í næstu viku og það eigi að taka þetta allt saman inn í heildarplan.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti svarað því til hvers hæstv. forsætisráðherra var að vísa. Er búið að koma nægum upplýsingum til peningastefnunefndar og hefur hún þessar forsendur til að taka nýjar ákvarðanir? Þarna er um ákveðið misræmi að ræða. Ég vildi líka spyrja hvort ekki standi til að láta þingið fá sömu upplýsingar og gefið er í skyn að peningastefnunefnd hafi eða hvort það sé stefnan að þingið fái alltaf allar upplýsingar síðast.