137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

ESB-aðild.

[15:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins talaði, að hann væri fastur í formsatriðum. Það má svo sannarlega segja að sú ríkisstjórn sem nú starfar sé ekki föst í formsatriðum. Ég hef bent á það áður í ræðu og riti að það er ekki tekið tillit til þeirra reglna sem gilda í samfélaginu, raunverulega er réttarríki okkar í hættu. Framkvæmdarvaldið fer ekki eftir þeim leikreglum sem kveðið er á um í stjórnarskránni og valtar bæði yfir þing og þjóð.

Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra var staddur á fundi á Egilsstöðum í gær með forsætisráðherrum Norðurlandanna og þar var m.a. á dagskrá hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er málið komið langt á borði ríkisstjórnarinnar, hvað er málið komið langt inni í þingflokki Vinstri grænna, sem styðja þessa ríkisstjórn og styðja þingsályktunartillögu þá sem liggur fyrir varðandi aðild okkar að Evrópusambandinu? Er málið komið lengra en þinginu er sagt? Er verið að valta hér enn eina ferðina yfir þingið með því að hafa þingsályktunartillögurnar tvær sem liggja fyrir um Evrópumálið liggjandi í utanríkismálanefnd og er verið að vinna að þeim og hvað er málið komið langt? Og hvernig getur hæstv. forsætisráðherra verið að hitta aðra forsætisráðherra og mæla fyrir og tala um mál, sem er ekki einu sinni komið á dagskrá þingsins og hvað þá heldur þjóðarinnar, í þjóðaratkvæðagreiðslu?