137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

ESB-aðild.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Forsætisráðherrafundur Norðurlandanna á Egilsstöðum er náttúrlega hefðbundinn reglubundinn fundur þeirra og að sjálfsögðu ræða menn þau mál sem þar eru efst á baugi í hverju tilviki. Oft er það þannig að það eru ekki síst málefni gistilandsins sem eru til umfjöllunar á slíkum fundum. Evópusambandsmálið er til umfjöllunar í utanríkismálanefnd, þær tvær þingsályktunartillögur sem fyrir Alþingi liggja um það mál. Það er í höndum þingsins og þingnefndarinnar og nákvæmlega þar er það statt. Ég geng út frá því og held að ég geti alveg fullvissað hv. þingmann um að umræðurnar þarna voru á grundvelli þeirrar stöðu málsins og ekki um neitt annað, enda tók ég eftir því að a.m.k. einn ef ekki tveir af forsætisráðherrum hinna Norðurlandanna töluðu um mögulega aðildarumsókn. (Gripið fram í.) Þeim er vel ljóst nákvæmlega hver staða málsins er, bæði í þingræðislegum og pólitískum skilningi. Ég held því að ekki sé ástæða til þess fyrir hv. þingmann að hafa af því áhyggjur að sjálft réttarríkið sé í hættu þó að forsætisráðherra Íslands hafi hitt forsætisráðherra hinna Norðurlandanna á Egilsstöðum.