137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framfærslugrunnur LÍN.

[15:35]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um framfærslugrunn lánasjóðsins. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er staða lánasjóðsins mjög þröng og eins og kunnugt er var eigið fé hans skert um milljarð á fjárlögum þessa árs til 2009. Fyrirhugaður er niðurskurður í ríkisfjárlögum og ætlunin er að minnka halla ríkissjóðs um nokkra tugi milljarða á fjárlögum næsta árs. Það er því erfitt að geta lofað nokkru um það að hækka framfærslugrunn lána þó að sú sem hér stendur sé auðvitað sammála hv. þingmanni um að lágmarksframfærsla upp á 100.600 kr. er auðvitað gríðarlega lág framfærsla fyrir nokkurn mann.

Sú afstaða hefur verið tekin í menntamálaráðuneytinu að skerða ekki Lánasjóð íslenskra námsmanna, leggja til að hann verði ekki skertur á komandi ári. En einungis það að uppfæra námslán, mánaðarnámslán samkvæmt verðlagsbótum, þ.e. að verðbæta námslánin sem þýðir að þau eru enn nokkuð fyrir neðan lágmarksgrunnframfærslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, mundi kalla á viðbótarútgjöld upp á 1,4 milljarða.

Það er nokkuð ljóst að þeir fjármunir eru ekki til staðar í menntamálaráðuneytinu sem þarf að skera niður fyrir næsta ár. Hins vegar er það í skoðun hvort menntamálaráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið geti skoðað það samspil lánasjóðsins og Atvinnuleysistryggingasjóðs, hvort unnt sé að auka samspil þessara tveggja sjóða þannig t.d. að fólk geti tekið námskeið en samt átt bótarétt og hvort hægt sé að skoða hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að veita þá frekar fjármuni til lánasjóðsins en Atvinnuleysistryggingasjóðs í því skyni að beina fleirum í nám.

Þetta er einungis hægt að skoða með því að skoða alla heildarmynd útgjaldanna (Forseti hringir.) og eins og ég segi, á svona tímum er mjög erfitt að lofa nokkru um niðurstöðu þeirrar vinnu.