137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta þá spurningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins bar hér upp. Nú hefur þingið hefur setið að störfum í mánuð og fengist við margvísleg verkefni en það er alveg ljóst mál þegar farið er yfir listann yfir frumvörpin og þingsályktunartillögurnar sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram að mörg þessara mála eru ekki af þeim toga að það sé knýjandi að afgreiða þau á þessu sumarþingi. Hins vegar bíðum við eftir því að ríkisstjórnin sýni það sjálfsagða frumkvæði sem henni ber við þessar aðstæður og leggi fram þau mál sem virkilega er kallað eftir í þjóðfélaginu.

Við heyrum hins vegar óljósar fréttir sem tilkynntar eru í gegnum fjölmiðla um að til standi að leggja fram efnahagshugmyndir öðrum hvorum megin við næstu helgi. Það eru fréttir sem við höfum heyrt fyrr. Þessi næsta helgi er farin að verða ansi teygjanlegt hugtak og óljóst hvort það eigi við um helgina sem er fram undan eða helgina í næsta eða þarnæsta mánuði.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. forseti fari að gera okkur þingmönnum grein fyrir því hvernig hugmyndin er að vinna þessi mál áfram, hversu lengi þingið á að starfa. Auðvitað eru þingmenn (Forseti hringir.) reiðubúnir til að vinna að góðum málum en það er hins vegar alveg ljóst mál að það vantar alla forustu ríkisstjórnarmegin um (Forseti hringir.) það hvernig að þessum málum eigi að vinna og hæstv. forseti verður að gera gangskör að því að þessi mál séu skýrð.