137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvenær við megum eiga von á að efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar liggi fyrir. Hvort frú forseti, sem er sameiginlegur forseti allra þingmanna, hafi beitt sér fyrir því að inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvenær þessi mikilvægu mál komi fram í þinginu. Vegna þess að hver einasti dagur og hver einasta vika sem líður í aðgerðaleysi bitnar á íslenskum heimilum og fyrirtækjum, bitnar á heimilunum með þeim hætti að stýrivextir eru miklu hærri en þeir þyrftu að vera. Við þurfum að fara að lækka þá en þá þurfa þessar mikilvægu aðgerðir ríkisstjórnarinnar að fara að líta dagsins ljós. Því beini ég því til frú forseta í mikilli einlægni hvort forseti hyggist beita sér fyrir því sem fulltrúi okkar allra þingmanna að spyrja ríkisstjórnina um það hver áætlunin sé að leggja fram efnahagstillögur og fleiri af þeim stóru málum sem ríkisstjórnin hefur boðað.