137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að það er orðið afar brýnt að fá úr því skorið hvernig starfi þingsins verður háttað næstu vikurnar. Ég man ekki betur en þegar slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að þá hafi verið látið að því liggja að það væri aðallega skortur á verkstjórn sem ylli því að málin kæmust ekki í gegn og næðu ekki fram að ganga og nú hefur þessi sami verkstjóri látið málin drabbast dálítið áfram í langa tíð.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það vöknuðu líka hjá mér mjög miklar áhyggjur þegar ég las um þarsíðustu helgi viðtal við hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem hann sagði að ríkisstjórninni lægi ekkert á vegna þess að hún ætlaði að sitja í tólf ár. Það er svona viðhorf, virðulegi forseti, sem ég óttast og þess vegna vil ég ítreka þá spurningu sem hér hefur komið fram: (Forseti hringir.) Hvenær fáum við þessi mál inn í þingið og getur virðulegur forseti upplýst okkur um það hvernig á að koma þessum mikilvægu málum fyrir í þinghaldinu?