137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta því að hér hafa hv. þingmenn, m.a. Birgitta Jónsdóttir og fleiri þingmenn, varpað fram spurningu til hæstv. forseta sem við kusum öll til þessa merkilega embættis og mér finnst lágmark þegar við komum upp og krefjumst og biðjum forseta í mikilli einlægni um að svara spurningum okkar að hæstv. forseti geri það því að hæstv. forseti hefur ekki svarað efnislega einni einustu spurningu sem við þingmenn höfum lagt fram undir fundarliðnum um fundarstjórn forseta og mér finnst að forseti eigi að sýna okkur þingmönnum þá virðingu að svara þeim fyrirspurnum sem við leggjum fram undir þessum dagskrárlið því að ef það gerist ekki er ekki mikið á þeim dagskrárlið að græða í þessari umræðu. (Gripið fram í: Það er ekkert á honum að græða.)