137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit á þskj. 117, frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Það frumvarp sem hér um ræðir byggir í raun og veru á fjórum býsna óskyldum málum. Í fyrsta lagi er verið að veita heimild til þess að undanskilja afla sem fæst við veiðar í fræðsluskyni frá kvóta. Í annan stað er verið að setja lagalegan ramma utan um svokallaðar frístundaveiðar sem er vaxandi atvinnugrein, svona á mörkum ferðaþjónustu og sjávarútvegs, getum við sagt. Í þriðja lagi er í rauninni verið að innleiða að nýju banndagakerfi við fiskveiðar sem menn hafa kallað strandveiðar. Loks var í frumvarpinu gert ráð fyrir því að skipta heildarafla í karfa í gullkarfa og djúpkarfa, sem auðvitað má telja eðlilegan hlut.

Vandinn við þetta frumvarp er sá að undirbúningur þess var mjög slaklegur í veigamiklum atriðum. Það sem hér er sérstaklega átt við er sá þáttur málsins sem kallaður hefur verið strandveiðar eða banndagakerfi hið nýja. Við vitum að þetta átti sér þann aðdraganda að það var kynnt í miðri kosningabaráttu og ég held að það sem hv. fyrrverandi þm. Karl V. Matthíasson sagði um þetta mál sé ekki fjarri lagi, þ.e. að þetta væru fremur atkvæðaveiðar en nokkuð annað.

Það er líka ljóst að þegar þessi mál eru skoðuð og t.d. frumvarpið borið saman við þau upphaflegu áform sem voru kynnt í marsmánuði síðastliðnum þegar þessu máli var fyrst hreyft opinberlega af hálfu stjórnvalda, þá hefur það tekið allnokkrum breytingum sem sýnir auðvitað að fyrsta atrennan að málinu var illa undirbúin og var ekki hugsuð í þaula, ekki fremur en þetta frumvarp eins og það liggur hér fyrir.

Þegar við skoðum frumvarpið þá blasir t.d. við að tvö meginatriði strandveiðifrumvarpsins eða banndagakerfisins nýja sem eru hér grundvallaratriði, að auka nýliðun og styrkja byggðir, það er alveg ljóst mál að hvorugt þessara markmiða næst með frumvarpinu. Á það hefur verið bent, m.a. í skriflegri umsögn sem kom til nefndarinnar núna nýverið, að bara umræðan um þessi mál hefur gert það að verkum að verð á bátum hefur hækkað. Því auðvitað er það þannig að þegar andlag veiðiréttarins verður ekki lengur kvóti heldur bátur þá mun það leiða til þess að veiðirétturinn, þ.e. báturinn, hækkar í verði. Þetta blasti við öllum. Það hefur einnig komið fram á markaði að sá þröskuldur sem hefur verið að aðganginum að auðlindinni hefur þá bara einfaldlega færst til. Og þó að hann sé kannski ekki alveg jafnhár, sem endurspeglar væntanlega minni væntingar manna um árangur við þessar veiðar, þá er hann engu að síður til staðar og hefur hækkað frá því sem áður var.

Það er líka ámælisvert hvernig staðið hefur verið að þessu máli að öðru leyti. Málið var lagt fram í lok maímánaðar af hálfu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og strax í upphafi voru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við mjög margt í grundvelli málsins og hvernig að þessu máli hefur verið unnið.

Þess vegna var það svo að við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lögðum á það mikla áherslu í nefndarstarfinu að reynt yrði að bæta úr ágöllunum á frumvarpinu með því að ætla sér betri og rýmri tíma til þessarar vinnu. Í því sambandi var sérstaklega farið fram á að þess yrði gætt að hafa umsagnartímann ríflegan til þess að þeir sem hagsmuna hafa að gæta og þeir sem þekkingu hafa á þessum málaflokki hefðu góðan tíma til að ígrunda það og fara yfir það vegna þess að kynningunni á því hafði verið mjög ábótavant. Auk þess hafði það tekið miklum breytingum frá upphaflegu hugmyndunum og því þurftu menn auðvitað nokkurn tíma til þess að átta sig á því hvað hér væri um að ræða.

Því miður treysti meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sér ekki til að verða við þessari sjálfsögðu og sanngjörnu ósk og fyrir vikið var umsagnarfresturinn skemmri en nauðsynlegt hefði verið. Ég vek t.d. athygli á því að Byggðastofnun, sú stofnun sem sérstaklega fjallar um byggðamálin í íslenskri stjórnsýslu, fékk þetta mál til umsagnar og umsagnarfresturinn sem stofnuninni var ætlaður var einn dagur. Einn dagur til þess að fara yfir þetta mál sem hefur verið kynnt sem mikilvægt mál, sem einhvers konar stefnubreyting í fiskveiðistjórnarmálum sem hefði margþættan tilgang, bæði þann að opna leiðir fyrir nýliða inn í kerfið og eins til þess að styrkja byggðirnar. Byggðastofnun sem er sú stofnun á m.a. að meta áhrif lagasetningar af þessu tagi á byggðirnar fékk heilan dag, heilan dag af rausnarskap meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til að fara yfir þetta mál. Og það er ekkert skrýtið þó að í umsögn Byggðastofnunar sé talað um að þetta séu gjörsamlega óásættanleg vinnubrögð.

Þetta er auðvitað ekki bara mótsögn eða móðgun við umsagnaraðilann, það getum við sagt að sé kannski aukaatriði í þessu máli, það sem er miklu verra er að þetta mun auðvitað koma niður á vinnubrögðunum og árangrinum við lagasetninguna sem er að koma á daginn núna vegna þess að þær breytingartillögur sem meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kynnir í breytingartillögum sínum hér og gerir grein fyrir í nefndaráliti sem hv. starfandi formaður nefndarinnar var að mæla fyrir. Það kemur auðvitað greinilega fram að hér er um að ræða pínulitlar bætur á mjög götótta flík sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýndi á með frumvarpinu sem hann lagði fram, að ég hygg, þann 26. maí síðastliðinn.

Þetta er auðvitað mjög ámælisvert vegna þess að í sjálfu sér er þessi hugmynd um nýtt banndagakerfi alls ekki útilokuð og hugmynd sem vel má skoða og vinna að. En þá þarf auðvitað að gæta þess að það sé gert þannig að vinnan leiði til þess að við fáum viðunandi niðurstöðu. Þetta séu ekki óásættanleg vinnubrögð, svo ég vitni aftur í umsögn Byggðastofnunar í þessum efnum.

Af þessum ástæðum neyddumst við til þess að kalla fyrir nefndina fleiri umsagnaraðila en ella hefði verið ef betur hefði verið að þessu máli staðið. Og það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir tregðu meiri hluta nefndarinnar til þess að slíkum vinnubrögðum yrði beitt þá voru þessar heimsóknir til mikils gagns að flestra mati vegna þess að þær vörpuðu betra ljósi á það mál sem hér er um að ræða og þann vanda sem við er að glíma.

Því miður leiddu þessar heimsóknir og álit fjölmargra umsagnaraðila ekki til þess að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vildi gera nægilegar breytingar á frumvarpinu. Það er athyglisvert þegar við skoðum umsagnirnar sem hafa borist að flestar hverjar eru býsna neikvæðar. Meira að segja ef við skoðum umsögn Landssambands smábátaeigenda, sem í grunninn er jákvæð fyrir þeirri hugmynd að innleiða hér nýtt banndagakerfi, þá er það líka þannig að í þeirri umsögn koma fram mjög veigamiklar athugasemdir við marga þætti sem því miður er ekki tekið tillit til nema að mjög litlu leyti.

Ef ég vík aðeins að nokkrum efnisatriðum sem koma fram í frumvarpinu og tek fyrst fyrir 1. gr. frumvarpsins sem lýtur að heimildum til þess að opna á eða tryggja aðgang manna til þess að stunda eða kynna sér, má kannski segja, fiskveiðar í gegnum skólakerfið, þá tel ég að þetta sé sjálfsagt mál. Það er í raun og veru í samræmi við það sem framkvæmdin hefur verið í þessum efnum. Hér er bara verið að styrkja lagagrundvöll þeirra framkvæmda sem menn hafa stuðst við í meginatriðum. Vonandi verður þetta fremur til þess að efla þennan þátt málsins, þ.e. kynning æsku landsins á starfsemi tengdri sjávarútvegi. Það er því í sjálfu sér ekki mikið um það að segja og sjálfsagt mál að öllu leyti.

Þá get ég líka sagt að það ákvæði sem lýtur að frístundaveiðibátunum svokölluðu er auðvitað til bóta. Þannig er mál með vexti að þessi mál hafa komið hér nokkuð til umræðu. Á síðasta eða næstsíðasta þingi var lagt fram frumvarp varðandi lagaumgjörð í kringum frístundabátana. Það komu fram ýmsar athugasemdir við það mál og niðurstaða mín, sem þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og niðurstaða meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar var að reyna að vanda sig sem best við þessa lagasetningu. Og í stað þess að flaustra við það mál og skila því í gegnum þingið var niðurstaðan sú að gefa því meiri tíma, setja niður nefnd í málinu þar sem í störfuðu hagsmunaaðilar í þessari grein og þeir komust að tilteknu samkomulagi um hvernig best væri að hátta þeim málum.

Auðvitað er það þannig að þó að nefnd komist að slíkri niðurstöðu þá er jafnvel starf slíkrar góðrar nefndar ekki yfir vafa hafið. Það kom líka í ljós þegar þetta mál var kynnt í meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á vordögum skömmu fyrir þinglok í vor, kom fram hjá umsagnaraðilum sem komu þá fyrir nefndina, ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara. Í rauninni var það svo að nefndin hafði sett niður á blað eða formaður nefndarinnar hafði a.m.k. sett niður á blað hugmyndir um það sem betur mætti fara til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni hjá umsagnaraðilum sem ráku augun í sitthvað sem betur mátti fara í þessum kafla málsins.

Ég hafði þó vænst þess að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra legði þetta mál fyrir hefði hann að minnsta kosti látið svo lítið að taka tillit til þeirra sjálfsögðu ábendinga og þeirrar niðurstöðu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafði komist að í vor. En því miður var því ekki að heilsa. Svo mikið lá á að leggja þetta frumvarp fram að þess var ekki beðið eða gefinn tími til þess að skoða einu sinni þær hugmyndir sem höfðu komið fram við þinglega meðferð málsins í þeim skilningi að málið hafði verið til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar höfðu menn komið auga á sitthvað sem betur mátti fara. En óðagotið var svo mikið við undirbúning málsins að ekki var tími til þess að skoða þessi mál.

Síðan vil ég líka vekja athygli á því að þrátt fyrir þær breytingar sem núna hafa verið gerðar með breytingartillögum meiri hlutans þá taka þær ekki nema að hluta til til þeirra ábendinga sem fram hafa komið. Ég vek t.d. athygli á því að í umsögn Landssambands smábátaeigenda um þetta mál er bent á að hér hefur líka þróast atvinnuvegur, ekki mjög stór í sniðum en atvinnuvegur sem skiptir máli fyrir einyrkja í sjávarútvegi sem stunda fiskveiðar en hafa líka gert út á þessar frístundaveiðar. Ég get ekki skilið frumvarpið eins og það liggur núna fyrir öðruvísi en svo að það sé í raun og veru verið að loka algjörlega á möguleika þessara aðila að halda áfram þessari atvinnustarfsemi sinni sem þeir hafa þó lagt fjármuni og fjárfestingu í. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að þau mál séu gaumgæfð betur ásamt fleirum milli 2. og 3. umr. málsins.

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda segir, eftir að þeir hafa gert grein fyrir breytingahugmyndum sínum á þessu frumvarpi eins og það var lagt fram, með leyfi forseta:

„Dæmi eru um að eigendur báta með veiðileyfi í atvinnuskyni hafi lagt í umtalsverðan kostnað í því skyni að bjóða upp á þjónustu við ferðamenn hluta úr ári. Tilgangurinn er að bæta upp að einhverju leyti hinn gríðarlega niðurskurð þorskveiðiheimilda.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hefji aðili umrædda þjónustu 1. maí á hann ekki afturkvæmt til veiða í atvinnuskyni fyrr en að loknu fiskveiðiárinu 31. ágúst.

Þetta ákvæði frumvarpsins mun fæla áhugasama aðila frá hinni nýju atvinnugrein í ferðaþjónustu.“

Þetta er auðvitað mál sem hefði þurft frekari skoðunar við. Á þessu eru örugglega fleiri hliðar en sjálfsagður hlutur hefði ég talið að þetta mál hefði fengið frekari skoðun í nefndinni.

Í þeirri umræðu sem farið hefur fram um þetta frumvarp, bæði innan nefndarinnar, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og einnig hér í þingsölum og svo sem líka í hinni opinberu umræðu þá hefur ákvæðið til bráðabirgða I fengið mestu umfjöllunina og umræðuna. Í raun og veru er það mál allt í skötulíki og ég verð að segja eins og er að það vekur mikla furðu mína að menn nálgist breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum með þessum hætti. Við þurfum ekki annað en að lesa nefndarálit meiri hluta nefndarinnar og ég tala nú ekki um framsöguræðu hæstv. ráðherra og þær umræður sem fóru fram í þingsölum þegar mælt var fyrir þessu máli og það rætt við 1. umr. til þess að átta okkur á því að það er auðvitað ekki mikil fullvissa á bak við þetta mál. Það eru miklar efasemdir sem greinilega bærast um í kolli þeirra sem standa að þessu máli þrátt fyrir allt. Þeir hafa áhuga á því, sem er út af fyrir sig sjónarmið sem ég tel alveg sjálfsagt að virða og skoða, að taka upp þetta nýja banndagakerfi en hafa hins vegar greinilega miklar efasemdir um sínar eigin útfærslur í málinu. Því það er lagt upp með að þetta séu nokkurs konar veiðar í tilraunaglasi. Eftir árið eigi svo að skoða hvernig til hafi tekist. Ekki þannig, eins og væri auðvitað miklu eðlilegra, að málið væri undirbúið með vönduðum hætti, leitað eftir umsögnum, farið ofan í þessi mál með hagsmunaaðilum, reynt að átta sig á fyrir fram líklegum áhrifum og hvernig hægt væri að gera þetta mál eins vel úr garði sem hægt væri og setja síðan málið fram. Í stað þess er þetta lagt fram eins og ég hef þegar gert grein fyrir og síðan sleginn sá varnagli að þetta mál sé kannski svo ófullburða að það sé ástæða til að gera á því miklar breytingar.

Út af fyrir sig er það rétt að Alþingi hefur alltaf heimild til þess að gera breytingar á lögum og getur gert það hvenær sem er. En þegar um er að ræða mál eins og þetta þar sem verið er að opna á nýja aðferð við fiskveiðistjórn, þó að hún sé ekki mjög stór í sniðum, er sjálfsagt að reyna að gera það þannig að þeir sem taka þátt í þessum veiðum frá fyrsta degi geti haft einhverja vissu fyrir sér.

Ljóst er, t.d. hefur það komið glögglega fram í starfi nefndarinnar, að mjög margir aðilar hafa þegar lagt í talsverðan kostnað og fyrirhöfn við að undirbúa veiðar í þessu skyni og þess vegna er það ekki vel gert gagnvart þeim að skilja þá eftir í lausu lofti. Segja má sem svo að menn beri þá sína ábyrgð sjálfir. En væri ekki eðlilegra — til að reyna að ná hámarksafrakstri út úr þessu, bæði fyrir þá sjómenn og útgerðarmenn sem vilja stunda þessar veiðar og ég tala nú ekki um fyrir þjóðfélagið í heild og ef til vill byggðirnar sem þessa munu njóta — að menn hefðu reynt að skoða þetta betur og haft einhverja meiri fullvissu og farið þannig í málið?

Það sem við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar höfum gagnrýnt hvað harðast er sú bersýnilega afleiðing sem verður af þessu frumvarpi, verði það samþykkt á Alþingi sem allt stefnir í, þær afleiðingar að þetta mun færa veiðirétt frá byggðum í umtalsverðum mæli, frá veikustu sjávarbyggðum landsins, þeim byggðum sem hafa helst misst frá sér aflaheimildir þar sem fiskvinnsla hefur dregist saman og íbúum hefur fækkað.

Af hverju nefni ég þessi þrjú atriði? Jú, þetta eru þau atriði sem eru lögð til grundvallar þegar verið er að úthluta byggðakvóta. Úthlutun byggðakvóta fer þannig fram að lagðar eru fram efnislegar forsendur sem unnið er eftir, gagnsæjar efnislega forsendur, og þannig er reiknað út hvernig byggðakvótanum er síðan skipt á milli byggðarlaga, ekki á milli sveitarfélaga heldur byggðarlaga til að koma einmitt til móts við þau minni byggðarlög, jafnvel innan stærri sveitarfélagaeininga sem hafa verið að missa frá sér aflaheimildir þar sem fiskvinnsla hefur verið að dragast saman og þar sem íbúaþróun hefur verið neikvæð. Þetta eru þættir sem við erum að reyna að bregðast við af veikum mætti í okkar fiskveiðistjórnarkerfi og þess vegna vekur það nokkra undrun að það skuli þá verða heillaráðið, þegar ákveðið er að brydda upp á þessu nýmæli að endurvekja banndagakerfið í þessari mynd, að það sé gert með þeim hætti að færa veiðiréttinn í raun og veru frá þessum byggðarlögum.

Það kom glögglega fram í máli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sóttu okkur heim í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og kom einnig fram í máli fulltrúa Súðavíkurhrepps og Stykkishólmsbæjar að afleiðingin af frumvarpinu væri mjög alvarleg fyrir þau byggðarlög. Í máli fulltrúa Stykkishólmsbæjar og skriflegri umsögn sem lögð var fram í nefndinni kemur fram að innan sveitarfélagsins hefur átt sér stað umtalsverð uppbygging í sjávarútvegi. Við vitum að Stykkishólmur hefur orðið fyrir gífurlegum búsifjum vegna þess að skelveiðarnar sem voru uppistaðan í sjávarútvegi í Stykkishólmi árum og áratugum saman hrundu af ástæðum sem ég ætla ekki að orðlengja sérstaklega.

Á sínum tíma þegar aflakvóta var úthlutað var það staðreynd að útgerðirnar sem höfðu skelfiskkvóta fengu í sinn hlut minni aflaheimildir í bolfiski og þess vegna þegar það gerðist að hrun varð í skelveiðum og raunar líka í rækjuveiðum, sem var þýðingarmikill þáttur í atvinnustarfsemi í Stykkishólmi, brugðust útgerðarmennirnir þar við á þann hátt að þeir reyndu að hasla sér völl í bolfiskvinnslu og -veiðum. Í því sambandi skipti tvennt mjög miklu máli. Annars vegar voru til staðar heimildir í fiskveiðistjórnarlögunum um að bregðast við með sérstökum hætti þegar um það væri að ræða að aflaheimildir hryndu í einhverjum tegundum af líffræðilegum ástæðum eins og gerðist bæði í rækjunni og skelinni. Því hefur verið beitt sem betur fer og sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyndi ég að beita því þannig á þeim tíma að það kæmi sér sem best fyrir þessi byggðarlög og ég veit að það hefur skipt mjög miklu máli fyrir byggðir í Breiðafirði, Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa svo dæmi séu tekin og raunar austur um líka.

Til viðbótar þessu hefur byggðakvóta líka verið úthlutað til Stykkishólms og vegna þess að aðstæður eru þar eins og raun ber vitni hafa þeir fengið rúmlega 200 tonn undanfarin ár, ef ég man rétt, til að vinna úr. Reglurnar um byggðakvóta eru þannig að áður en menn fá úthlutað verða þeir að leggja upp til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi tvöfalt magn til þess að eiga rétt á byggðakvótanum. Sú ákvörðun ein og sér sem boðuð er með þessu frumvarpi og ákveðin í raun og veru með því, að skerða byggðakvótann um helming, hefur þess vegna margföldunaráhrif í neikvæðum skilningi á stöðu þessara fyrirtækja í Stykkishólmi. Fram kom að byggðakvótinn þar er um 10% af úthlutuðum aflaheimildum í hólminum og það munar auðvitað um minna þegar tekin er ákvörðun um að skerða þetta. Það mun hafa þau áhrif, að því er fulltrúar þessa sveitarfélags segja, að þetta mun stytta vinnslutímann og útgerðartímann í Stykkishólmi um einn eða tvo mánuði og munar um minna.

Sama er að segja þegar fulltrúi Súðavíkurhrepps kom á fundinn og greindi okkur frá því að mjög svipað væri þar upp á teningnum. Þar eru aðstæður á margan hátt svipaðar, þeir hafa orðið fyrir miklum bresti vegna hruns rækjunnar sem skiptir miklu máli fyrir þennan stað, fengu það uppborið að hluta til með byggðakvóta. Þar hafa verið hins vegar ákveðin vandamál uppi í fiskvinnslunni en ljóst er að forsendan fyrir því að þar sé hægt að byggja upp fiskvinnslu er aðgangurinn að byggðakvótanum. Lega staðarins er þannig að þeir munu ekki njóta nema í mjög takmörkuðum mæli að mati heimamanna afrakstursins af þessu nýja fyrirkomulagi. Þegar við skoðum þetta er ljóst að eins og það er lagt fram í frumvarpinu er því miður ekki verið að taka á þeim vanda sem er sannarlega til staðar. Við skulum ekki gera lítið úr þeim byggðavanda sem er í þessum sjávarplássum að hluta til vegna fiskveiðistjórnarkerfisins, að hluta til af öðrum ástæðum, og við höfum verið að reyna að byggja inn í fiskveiðistjórnarlögin alls konar ákvæði sem hafa haft þann yfirlýsta tilgang að reyna að styðja við þessar veikustu byggðir þó að ég skuli fúslega og fyrstur manna viðurkenna að í þeim efnum gætum við auðvitað gert miklu betur.

Ekki þarf annað en að skoða greinargerðina sem fylgir með eða fylgiskjal sem byggist á svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni um þessi mál þar sem úthlutunin kemur fram eins og hún hefur farið fram undanfarin þrjú fiskveiðiár til einstakra byggðarlaga. Því miður var sú ákvörðun tekin að úthluta ekki byggðakvótanum fyrir þetta ár, við höfum því ekki nýrri upplýsingar en fiskveiðiárið 2007/2008. Við sjáum á þeim töflum að um er að ræða mjög umtalsverðar aflaheimildir fyrir tiltekin byggðarlög sem núna munu þá eiga um sárt að binda vegna þeirra laga sem verið er hér að reyna að lögfesta.

Við bentum líka strax á það við 1. umr. málsins að sú svæðaskipting sem lögð er til grundvallar í frumvarpinu, til að mynda svæði A frá sjávarútvegsbyggðinni Eyja- og Miklaholtshreppi að Skagabyggð, kemur að litlu gagni í byggðalegu tilliti. Á þetta var þráfaldlega bent í umræðunum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis og guði sé lof hefur það að einhverju leyti skilað sér til meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þeir átta sig alla vega á því að hér er um að ræða vandamál, þ.e. að frumvarpið tekur ekki á þeim vanda sem við gerðum grein fyrir strax við 1. umr. málsins. Þá var því að vísu mótmælt harðlega, sérstaklega af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þessi svæðaskipting ylli einhverjum sérstökum vanda. En í sjálfu sér viðurkennir meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að um sé að ræða vandamál sem þurfi að bregðast við. Vitaskuld er það þá þannig að þingið hefði, sem hefur fengið þessar upplýsingar, átt þess kost að ræða við fulltrúa hagsmunaaðila, sveitarfélaga og fleiri aðila, eðlilega glímt við það að reyna að teikna upp nýja svæðaskiptingu til þess að koma til móts við þessi sjónarmið og ganga þannig frá málinu að þingið hefði fullvissu um að verið væri að reyna að koma til móts við byggðalegar áhyggjur manna. Það er hins vegar ekki gert heldur með tiltölulega einföldum og billegum hætti, sagt bara sem svo: Nú fær hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — hann er ekki hér, nei — heimild til þess að spinna og prjóna upp og teikna upp nýja svæðaskiptingu án þess að við sem erum að samþykkja þessi lög vitum nokkurn skapaðan hlut um það hvernig þessi svæðaskipting á að líta út.

Ég tel t.d. alveg einboðið, úr því að verið er að leggja það til að færa valdið í hendur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að á fundi nefndarinnar milli 2. og 3. umr. komi fulltrúi ráðuneytisins og geri okkur grein fyrir því a.m.k. í grófum dráttum hvaða hugmyndir ráðuneytið hefur um það hvernig þessi svæðaskipting ætti að líta út. Ég er ekki að fara fram á að það sé gert sveitarfélag fyrir sveitarfélag. Ég tel hins vegar eðlilegt að ráðuneytið sýni á spil sín því að ekki getur það verið svo að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggi fram breytingartillögur í þessa veru án þess að á bak við sé einhver grunnhugsun um hvernig þetta fyrirkomulag getur litið út, hvernig menn hafa hugsað sér þetta. Er ekki hugmyndin þá væntanlega sú að fjölga þessum svæðum, minnka þessi svæði til að tryggja það að löndunin eigi sér þá stað a.m.k. innan atvinnusvæðis, þjónustusvæðis, eitthvað í þeim dúr, svo ég noti orðanotkun úr byggðaumræðunni?

Við sjáum hins vegar af því frumvarpi sem liggur fyrir að þar er ekki um að ræða neina svæðaskiptingu sem lýtur neinu slíku. Það er enginn samgangur á þjónustusvæðinu Skagabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, svo dæmi sé tekið af svæði A sem ég kannast aðeins við. Því er ljóst að þessi mál þarf að skýra áður en frumvarpið verður að lögum. Alþingi getur auðvitað ekki gengið þannig frá málinu að þingið hafi ekki nokkra hugmynd um hvernig ætlunin er að taka á þessu stóra máli sem við höfum gert að mjög miklu umtalsefni og hefur greinilega ruggað við meiri hluta nefndarinnar í þá veru að nefndin er að velta þessu fyrir sér.

Síðan er það svo — nú fer tími minn að styttast nokkuð — að það er mjög margt annað sem mætti finna að í frumvarpinu sem er til marks um að það sé ekki vel úr garði gert. Það er t.d. ljóst að reglur um veiði annarra tegunda en þorsks munu gera þennan veiðiskap hér um bil ómögulegan á þeim svæðum þar sem ufsi er uppistaðan í handfæraaflanum. Nú sjáum við af þeim tölum sem fyrir okkur voru lagðar frá Fiskistofu að ufsaaflinn fiskveiðiárið 2005/2006 er 3.200 tonn, var 5.900 tonn af þorski, 2006/2007 var aflinn 1.843 tonn í ufsa og 4.400 í þorski og 2007/2008 var það 2.400 tonn af ufsa og 3.500 tonn af þorski. Ekki veit ég nákvæmlega hver skýringin er á þeim breytingum, hugsanlega gætu þær verið að handfæraveiðar hafi verið að færast yfir á svæði þar sem ufsagengd er mikil á sumrin, það er langlíklegasta tilgátan. Að minnsta kosti er ljóst að á ýmsum svæðum er aflinn á handfæri mjög ufsaborinn og ég fullyrði að þær breytingar sem verið er að gera núna með tillögum meiri hluta nefndarinnar koma ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til móts við hagsmuni þeirra sem eru á þeim svæðum þar sem ufsinn er sterkastur í handfæraaflanum. Þetta er því svona frekar lítil og ómerkileg skóbót sem er verið að setja á þennan þátt málsins og þannig mætti áfram telja.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að orðlengja um þær umræður sem hafa farið fram um öryggismál þeirra sem þessar veiðar munu stunda, þau mál voru mjög rædd í nefndinni en ég hef ekki tíma til að fara yfir það. Síðan hefur verið bent á að þessar veiðar muni eiga sér stað á sumrin þegar aflinn er kannski verðminni sem hráefni. Miklar umræður komu líka fram um að setja bæri reglur til þess að tryggja hina bestu umgengni um aflann, við vitum að á minni bátunum er aðstaðan oft lakari, t.d. til þess að kæla aflann eftir blóðgun og ísa hann o.s.frv. Þetta eru hlutir sem ég geri ráð fyrir að Fiskistofa og þeir aðrir sem um þessi mál fjalla velti fyrir sér.

Í nefndarálitinu segjum við að við teljum að í sjálfu sér sé sú hugmynd sem verið er að fjalla um allrar athygli verð og það beri að skoða hana. Hins vegar er að okkar mati langskynsamlegast að fresta öllum áformum um framkvæmd þessa nýja banndagakerfis og við eigum þess vegna fremur að fara í það að reyna að skoða þessi mál gjörla alveg eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni. Á málinu eru fjölmargir agnúar eins og við blasa öllum þeim sem það skoða og óvissa sem því fylgir til viðbótar við allt annað.

Þess vegna væri eðlilegast núna að úthluta nú þegar, bara í þessari viku, þeim byggðakvóta sem fyrir liggur og tekinn var frá við úthlutun aflaheimilda í upphafi þessa fiskveiðiárs og úthluta í samræmi við þær reglur sem gilda, eins og ég veit að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur áform um og hann upplýsti okkur um að hann hefði áform um að gera að samþykktu þessu frumvarpi. En eðlilegast væri að úthluta þessum byggðakvóta eins og hann leggur sig á grundvelli þeirra reglna sem hæstv. ráðherra tók undir að gæti verið skynsamlegur grunnur og fresta þá um sinn a.m.k. áformum um að innleiða hið nýja banndagakerfi.

Að lokum vil ég nefna að ég tel að skynsamlegast sé að fresta bráðabirgðaákvæði II líka. Fyrir því eru fullgild rök eins og fram hefur komið. Þar þarf að skoða sérstaklega hvort hægt sé að afla gagna eða hvort til staðar séu nægileg gögn til að framkvæma þessa skiptingu um gullkarfa og djúpkarfa. Það er ekki víst að svo sé, það þurfa menn þá að leiða í ljós. Þess vegna tel ég að skynsamlegt sé, eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans, að fresta bráðabirgðaákvæði II meðan við förum betur yfir þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég ítreka þá ósk mína að áður en málið fer til 3. umr. (Forseti hringir.) komi það til frekari umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.