137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eru svo sem ekki gerðar miklar tillögur um breytingar frá því frumvarpi sem var lagt fram.

Meiri hlutinn telur rétt að breyta orðalagi 1. tölul. 4. efnismgr. 2. gr. þar sem tilgreindur er ákveðinn fjöldi stanga/færarúllna sem heimilt er að nota og fiska sem heimilt er að veiða. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja nánari leiðbeiningar í reglugerð í tengslum við leyfi það sem tilgreint er í 1. tölul. 4. efnismgr. 2. gr., um fjölda sjóstanga/færarúllna sem heimilt er að nota hverju sinni og fjölda fiska. Einnig leggur meiri hlutinn til að viðurlagaákvæði verði bætt við greinina.

Ég get alveg tekið undir þetta álit nefndarinnar. Nefndin kemur líka inn á viss sjónarmið varðandi strandveiðihluta frumvarpsins, um úthlutun hluta af byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári til strandveiða og áhrif þess á byggðir landsins, og þær athugasemdir að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu um að nýta hluta byggðakvóta á þennan hátt geti koma niður á ákveðnum byggðarlögum. Í því samhengi var fjallað um svæðaskiptingu þá sem lögð er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur svæðaskiptinguna til þess gerða að koma til móts við byggðasjónarmið og telur í ljósi framkominna athugasemda rétt að reynt verði að koma enn frekar til móts við þau byggðarlög sem verða fyrir skerðingu á byggðakvóta. Meiri hlutinn leggur til að ráðherra verði heimilað að setja í reglugerð ákvæði um frekari svæðaskiptingu með það að markmiði að koma til móts við þau sveitarfélög sem fá nú minni byggðakvóta í sinn hlut.

Ég tel líka að þetta eigi fyllilega rétt á sér og að hæstv. ráðherra eigi að fá heimild til að skoða þetta í þessu samhengi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur líka til að breytt verði varðandi daga, áður var talað um að ekki mætti veiða á laugardögum og sunnudögum en nú er lagt til að það verði á föstudögum og laugardögum og að um borð verði einungis fjórar handfærarúllur. Ég tel þetta góðar ábendingar og er sammála þeim.

Í bráðabirgðaákvæði um lengd í hverri veiðiferð var talað um að lengd veiðiferðar yrði 12 klukkustundir og að miðað yrði við þann tíma frá því að fiskiskipið lætur úr höfn og þar til það kemur aftur til hafnar. Ég hefði viljað sjá að þessu yrði breytt milli 2. og 3. umr. þannig að tíminn yrði rýmri. Þar sem verið er að tala um ákveðinn kílóafjölda, 800 kíló af þorski í hverri veiðiferð, væri nægjanlegt að miða við sólarhringinn en ekki þennan klukkustundafjölda þar sem mismunandi er langt á miðin frá hverju sjávarþorpi eða útgerðarstað.

Annars er ég mjög ánægð með að þetta skuli vera komið hingað til 2. umr. og tel brýnt að flýta þessu máli sem mest. Það er beðið eftir afgreiðslu þess vítt og breitt um landið og þess vegna brýnt að við hröðum afgreiðslu þess. Ég ber ekki neinn ótta í brjósti um að þetta muni koma niður á sjávarbyggðum landsins. Ég tel löngu tímabært að brjóta upp það kerfi sem við höfum búið við. Eins og fram hefur komið er þetta tilraun til eins árs og verður málið skoðað í því ljósi í framhaldinu.

Ég tel að reynslan í sumar muni sýna hvernig þetta verður útfært í framhaldinu. Þetta er gott innlegg í þá endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni sem við erum að fara í og ég mæli því heils hugar með því að þessu máli verði hraðað sem mest.