137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er merkilegt að hlusta á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala hring eftir hring í þessu máli. Sömu menn og tala af mikilli hörku gegn breytingum á núverandi kvótakerfi hafa mestar áhyggjur af nýliðun í greininni og hafa mestar áhyggjur af þeirri von sem hefur vaknað hjá fólki í veikum byggðum vegna þessa frumvarps sem hér liggur fyrir, þess þáttar þess sem lýtur að strandveiðum. Það er nefnilega hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að væntingarnar eru miklar, væntingarnar eru þær að menn eru meira að segja, eftir að hafa skoðað málið vel, farnir að hugleiða það að fara t.d. úr frístundaveiðum yfir í strandveiðar. Það ætti að segja eitthvað um það hvaða möguleika menn sjá í því að geta farið á sjó og hafið handfæraveiðar.

Ég kem hins vegar upp til að gera svolitla athugasemd við þessa umræðu um umsagnirnar fyrir nefndinni. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði eins og einhverjum umsagnaraðilum sem hefðu sjálfir óskað eftir að fá að koma fyrir nefndina hefði verið neitað um það. Það er ekki rétt. Þeir sem óskuðu eftir að fá að koma fyrir nefndina fengu það fyrir utan einn aðila sem óskaði eftir því of seint.

Varðandi það að því hafi verið hafnað að fá fulltrúa Landhelgisgæslunnar á fund þá er það einfaldlega rangt. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar verða boðaðir til fundar nefndarinnar en þar sem tími vannst ekki til slíks fundar áður en gengið var frá nefndarálitinu var óskað eftir skriflegum athugasemdum frá Landhelgisgæslunni og þeir óskuðu ekki eftir því sjálfir að koma fyrir nefndina svo það sé alveg skýrt. En tíminn er dýrmætur, líka fyrir þá sem kallaðir eru fyrir nefndir og til þess hefur líka (Forseti hringir.) verið tekið tillit.