137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það að meiri hluti nefndarinnar telur mjög þarft að ræða við Landhelgisgæsluna um öryggismál sjómanna og sjófarenda almennt og yfirleitt og mun gera það.

Ég vil þakka minni hluta nefndarinnar fyrir að hafa verið leiðitamir og fúsir að koma á aukafundi í nefndinni. Það er rétt að láta það koma fram samhengisins vegna að þeir fundir voru flestir til komnir vegna sífelldra óska minni hlutans um sífellt fleiri umsagnaraðila sem mættu á fundi nefndarinnar og sátu þar og eyddu tíma sínum í að hlusta á menn í málflutningi sem vissu svo varla um hvað þeir ætluðu að spyrja þessa sömu umsagnaraðila. Það komu upp nokkur vandræðaleg augnablik af því taginu á fundum nefndarinnar en látum það nú vera.

Aðalatriðið er kannski það að þetta strandveiðifrumvarp hefur vakið væntingar eins og fram hefur komið. Þetta eru kannski jákvæðustu og bestu fréttir sem smábátasjómenn víða um land hafa fengið í þeirri ördeyðu og þeim erfiðleikum sem þjóðin stendur frammi fyrir þessa erfiðu mánuði og erfiðu missiri. Það er því undarlegt að hlusta síðan á og verða vitni að, þann tíma sem málið hefur verið í meðförum nefndarinnar, markvissri viðleitni til að tefja þetta mál og koma í veg fyrir að sá reynslutími sem við ætlum okkur að læra af verði fullnýttur. Hann er orðinn verulega skertur nú þegar vegna tafa og það er bagalegt fyrir þá sem eiga mestra hagsmuna að gæta af þessu frumvarpi.