137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil auðvitað taka undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni um að það er mikilvægt að nefndarstarfið sé öflugt og að það sé vettvangurinn til að kalla inn hina ýmsu hagsmunaaðila. Þegar kemur að því hvort hann sé hlynntur strandveiðum eða ekki þá kemur það glögglega í ljós að sjálfstæðismenn tala um að þeir séu tilbúnir að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið en þeir eru búnir að vera við völd í 18 ár. Stór hluti þjóðarinnar er mótfallinn því kerfi sem nú er við lýði og ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn, miðað við þann málflutning sem verið hefur í þinginu við setningu þings og fleira, þá trúi ég því ekki fyrr en ég sé það að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið og ná sátt við þjóðina í þessu máli. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það en ef það verður þá fagna ég því.

Hins vegar vil ég segja að er alveg með ólíkindum að horfa á Sjálfstæðisflokkinn koma trekk í trekk og verja núverandi kerfi, alla þá galla og meinbugi sem á því eru og maður fer að velta því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé deild í LÍÚ eða öfugt.