137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir hugvekjandi ræðu og ég meina það. Þingmaðurinn hefur áralanga reynslu af fiskveiðum og útgerð og ég met þá reynslu. Hann flutti sannfærandi rök fyrir mörgu sem hann sagði sem ég vil virkilega hlusta á ef allt væri í mínu valdi sem það er að sjálfsögðu ekki. Enda er ég nú bara varaformaður sjávarútvegsnefndar og mun ekki stýra starfi nefndarinnar mjög lengi.

En mér fannst margt umhugsunarvert sem kom fram í máli þingmannsins og ég deili með honum áhyggjum af afkomu byggðarlaganna. Ég vil samt halda því til haga að það er einmitt af áhyggjum yfir afkomu byggðarlaganna — og sérstaklega þeirra byggðarlaga sem eiga mikið undir byggðakvóta — sem nefndin leggur til þá breytingu við frumvarpið að sjávarútvegsráðherra verði heimilað að kveða nánar á um frekari svæðaskiptingu og löndunarstaði. Það er nákvæmlega til að koma til móts við það sjónarmið sem ýmsir höfðu uppi í umsögnum um frumvarpið, að treysta mætti grundvöll þeirra sem eiga mikið undir byggðakvótanum.

En það er hins vegar sorglegt í þessu máli að þessu frumvarpi og störfum nefndarinnar hefur verið fundið flest til foráttu í þessari umræðu en því miður hafa fáar tillögur komið fram um úrbætur úr þeirri sömu átt. Ég sakna þess vegna þess að ég held að það væri mjög mikilsvert í þessu máli sem öðrum ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar gætu unnið saman í jafnveigamiklu máli sem þessu sem varðar hagsmuni byggðarlaga og atvinnugreinar þar sem margir hafa átt um sárt að binda að undanförnu.